Fjöldi fólks hefur safnast saman í Moskvu, höfuðborg Rússlands, til að votta Mikhaíl Gorbatsjov, síðasta leiðtoga Sovétríkjanna, virðingu sína. Hann féll frá á þriðjudaginn eftir langa baráttu við veikindi, 91 árs að aldri.
Útför Gorbatsjovs hófst klukkan tíu í morgun að staðartíma og lauk klukkan tvö. Athöfnin fór fram í Súlnasalnum í Húsi verkalýðsfélaga í Moskvu var hún opin almenningi. Erlendum diplótmötum var einnig boðið eftir almenna opnun.
Nærliggjandi götur voru þéttskipaðar fólki sem stóð í löngum biðröðum eftir því að komast að.
Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, og Kristín Halla Kristinsdóttir, sendiráðunautur fóru á athöfnina fyrir hönd Íslands ásamt tveimur gestum, Ragnari Auðuni Árnasyni og Karítas Ríkharðsdóttur, sem er blaðamaður hjá mbl.is.
Útförin var ekki á vegum ríkisins en hafði mikið ríkisyfirbragð. Var til að mynda staðinn heiðursvörður við kistu fyrrum leiðtogans sem var opin. Mynd af Gorbatsjov hékk af svölum byggingarinnar og haf af rauðum nellíkum lá við kistuna sem viðstaddir lögðu hjá fyrrum leiðtoganum.
Að athöfn lokinni ræddi íslenski sendiherrann við rússneska fjölmiðla sem biðu fyrir utan. Í viðtali við þá sagði Árni Gorbatsjov virtan á Íslandi og að heimsókn hans til landsins árið 1986 væri oft minnst. Þá væri heiður að fá að kveðja leiðtogann.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti sá sér ekki fært um að mæta en samkvæmt skýringum Kreml var dagskrá forsetans þéttskipuð þennan daginn.