Kínverskum stjórnvöldum gremst mjög ákvörðun Bandaríkjamanna um að selja Taívönum eldflaugavarnakerfi ásamt Harpoon-flugskeytum, sem grandað geta skipum, og Sidewinder-stýriflaugum fyrir samtals 1,1 milljarð dala, jafnvirði rúmlega 156 milljarða íslenskra króna.
Vopnasölusamningurinn liggur á borðinu aðeins fáeinum vikum eftir að Nancy Pelosi, forseti fulltrúardeildar Bandaríkjaþings, heimsótti Taívan í ágúst og varð þá hæst setti bandaríski embættismaður sem heimsótt hefur landið í aldarfjórðung, eða síðan Newton „Newt“ Gingrich, forveri hennar í embætti, fór þangað í heimsókn skömmu fyrir aldamót.
Hvatti kínverska sendiráðið í Washington Bandaríkjastjórn til að rifta samningnum ellegar eiga yfir höfði sér „gagnaðgerðir“. Liu Pengyu, talskona sendiráðsins, kvað samninginn stofna sambandi Washington og Peking í „alvarlega hættu“. „Kína mun grípa til löglegra og nauðsynlegra gagnaðgerða í ljósi þróunar mála,“ sagði hún.
Kínverjar viðurkenna ekki sjálfstæði eyríkisins Taívans og telja það réttilega tilheyra Kína og skuli það sameinað því, með valdi krefji nauðsyn þess. Kínverjar blésu til mikilla heræfinga umhverfis Taívan í kjölfar heimsóknar Pelosi í ágúst og gerðu sig auk þess digra við komu þingforsetans með flugi orrustuþotna sinna yfir Taívanssundið.
Enn á Bandaríkjaþing þó eftir að ganga til atkvæða um vopnasölusamninginn en stjórnmálaskýrendum vestra dylst ekki hvernig þeirri atkvæðagreiðslu muni lykta þar sem flestir þingmenn styðji sjálfstæðisbaráttu Taívana. Talskona bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði að samningurinn væri „Taívan nauðsynlegur í öryggislegu tilliti“ og hvatti Kínverja til að „láta af hernaðarlegum, diplómatískum og efnahagslegum þrýstingi sínum gegn Taívan og reyna þess í stað að koma þýðingarmiklum viðræðum af stað“.