„Við höfum rætt þetta og hugsað það fram og til baka. Þannig er það nú bara að þetta mál er mál almennings. Þar með getum við ekki hlíft fjölskyldunni algjörlega,“ segir Erik Skjoldbjærg í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, leikstjóri nýrra Netflix-þátta sem hefja göngu sína 14. september og bera titilinn Hvarfið – Lørenskog 31. október 2018 eða Forsvinningen – Lørenskog 31. oktober 2018.
Fjallar þáttaröðin um sporlaust hvarf Anne-Elisabeth Hagen, eiginkonu norska auðmannsins og byggingaverkfræðingsins Tom Hagen, sem Norðmenn stóðu á öndinni yfir á haustdögum 2018. Þjóðin og stjórnandi lögreglurannsóknarinnar þóttust þess fullviss að eiginkonan horfna fyndist áður en langt um liði, lífs eða liðin.
Enn þann dag í dag eru rannsakendur þó engu nær um þetta umtalaðasta mannshvarf síðustu áratuga í Noregi. Ýmsir voru handteknir og sættu þrúgandi yfirheyrslum, þar á meðal Tom Hagen sjálfur sem lögregla neyddist til að sleppa úr gæsluvarðhaldi í kjölfar dómsúrskurðar og þurfti í næstu lotu harðyrtar snuprur frá saksóknara í Ósló sem skipaði lögreglu að láta Hagen í friði er önnur handtaka hans stóð fyrir dyrum.
„Við viljum ekki einblína á spurninguna um sekt eða sakleysi. Okkur fýsir að skoða hvernig fólk og við sem samfélag bregðumst við málum á borð við þetta,“ segir Nikolaj Frobenius, handritshöfundur þáttanna, við NRK. Hann kveður þættina ekki kasta fram neinum ályktunum um hver örlög Anne-Elisabeth Hagen hafi orðið.
„Við fullyrðum ekkert um hvernig hún hvarf eða hvað gerðist. Okkar markmið er að áhorfendur fyllist uppbyggilegum efasemdum um hvað gerðist, við viljum fá þá til að hugleiða sína eigin fordóma og það hvernig þeir skynja raunveruleikann,“ segir handritshöfundurinn enn fremur.
Aðstandendur þáttaraðarinnar játa að þeir geri sér fullkomlega ljóst hvílíkar byrðar þeir leggi á herðar Hagen-fjölskyldunnar. „Eftirfarandi ætlum við okkur að varpa ljósi á: Hvers vegna höfum þú og ég allar þessar hugmyndir um hvað gerðist og hverjir eru það sem komu þeim hugmyndum að hjá okkur?“ spyr leikstjórinn.
Þættirnir um Lørenskog-málið eru ekki heimildaþættir heldur leiknir dramaþættir þar sem aðalsögupersónurnar eru blaðamenn, rannsóknarlögreglumenn og uppljóstrarar, ekki sjálf Hagen-fjölskyldan. „Við gerðum allt til að halda fjölskyldunni á jaðrinum og fara eins varlega að henni og kostur var,“ segir Frobenius handritshöfundur.
Aðstandendur þáttanna fullvissa NRK um að þeir hafi verið í sambandi við lögmenn Hagen-fjölskyldunnar í sambandi við þáttagerðina en fjölskyldan kýs að tjá sig ekki um málið þegar NRK leitar álits hennar.