Virðuleg og viðeigandi útför

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, og Kristín Halla …
Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, og Kristín Halla Kristinsdóttir, sendiráðunautur fóru á athöfnina fyrir hönd Íslands. mbl.is/Karítas Ríkharðsdóttir

„Þessi athöfn var mjög virðuleg og viðeigandi,“ segir Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi um útför Mikhaíls Gorbatsjov, sem fram fór í dag. Hann segir það hafa verið mikinn heiður að vera fulltrúi Íslands við athöfnina. 

„Þetta var ekki opinber athöfn, en hún bar ýmislegt yfirbragð þess,“ segir Árni og nefnir sem dæmi að það hafi verið staðinn heiðursvörður, og að langar raðir hafi myndast af fólki sem vildi votta Gorbatsjov virðingu sína. 

Fjölmargir lögðu leið sína til athafnarinnar til að votta Gorbatsjov …
Fjölmargir lögðu leið sína til athafnarinnar til að votta Gorbatsjov virðingu sína. AFP/Alexander Zemlianichenko

„En forseti Rússlands var ekki og engir erlendir þjóðarleiðtogar, fyrir utan Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, svo ég viti til,“ segir Árni Þór, en bætir við að margir fulltrúar erlendra ríkja, einkum sendiherrar hafi verið viðstaddir útförina.  

Flókin tengsl við stjórnvöld

Árni Þór segir aðspurður að ýmsar ástæður geti legið að baki því að Gorbatsjov fékk ekki ríkisútför, og að ekki sé vitað hvort að stjórnvöld eða fjölskylda hans hafi ákveðið svo, eða jafnvel báðir hafi komist að þeirri niðurstöðu í sameiningu.

„Tengsl núverandi stjórnvalda við Gorbatsjov hafa verið dálítið flókin, og margir af þeim sem hafa staðið honum nálægt halda því fram að hann hafi ekki verið hrifinn af stjórnarstefnu núverandi forseta, einkum og sér í lagi núna síðustu mánuði og misseri jafnvel.“

Gorbatsjov ræðir hér við Vladimír Pútín í desember 2004.
Gorbatsjov ræðir hér við Vladimír Pútín í desember 2004. AFP/Alexander Nemenov

Þá bætir Árni Þór við að ef útförin hefði verið opinber, hefði það kallað á viðveru forsetans sem og að erlendum þjóðarleiðtogum hefði verið boðið til Moskvu, sem hefði mögulega orðið frekar flókið, sér í lagi hvað varðaði vestræna leiðtoga. 

-Þeir hefðu þá flestir þurft að segja nei? „Já, og kannski ekki alveg átt auðvelt með það heldur vegna tengsla þeirra við Gorbatsjov,“ segir Árni. 

Tvískipt umræða um arfleifðina

Árni Þór segir að umræðan í Rússlandi um Gorbatsjov hafi verið nokkuð tvískipt á síðustu árum, og oft mótast af skoðunum viðkomandi á falli Sovétríkjanna. „Það skiptir mjög í tvö horn, það eru auðvitað margir sem telja að hrun Sovétríkjanna hafi verið afleiðing hans stjórnarstefnu og margir sem sakna þeirra sem gera hann að blóraböggli,“ segir Árni Þór. 

Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, og Kristín Halla …
Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, og Kristín Halla Kristinsdóttir, sendiráðunautur fóru á athöfnina fyrir hönd Íslands. mbl.is/Karítas Ríkharðsdóttir

„En auðvitað eru líka aðrir sem segja, og jafnvel í fjölmiðlum í dag, að hann hafi þrátt fyrir allt gefið okkur frelsi til þess að hugsa og tala, og færði landið í átt til aukins frjálsræðis og bætti samskiptin við Vesturlönd,“ segir Árni en hann bætir við að það hafi borið meira á þeim sem eru neikvæðir í hans garð að undanförnu. „En svo þegar menn falla frá, þá er það eðli málsins samkvæmt að það verður meira um jákvæðari umfjöllun. Við sjáum báðar hliðar hér.“

Heiðursvörður var við athöfnina.
Heiðursvörður var við athöfnina. AFP/Alexander Nemenov
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert