Þýska ríkisstjórnin samþykkti í dag 65 milljarða evra aðgerðapakka, eða því sem nemur 9.000 milljörðum íslenskra króna, til að stemma stigu við orkukreppunni í landinu.
Felur aðgerðapakkinn m.a. í sér 300 evra eingreiðslu til milljóna lífeyrisþega í landinu, 200 evra eingreiðslu til nemenda auk þess sem fólk á húsnæðisbótum mun fá aukalega fjárhagsaðstoð.
Fyrr í sumar samþykkti ríkisstjórnin tvo aðgerðapakka sem samanlagt nema 30 milljörðum evra. Í kjölfar þeirra hjaðnaði verðbólgan í landinu. Í síðasta mánuði hóf verðbólgan að hækka aftur og náði hún 7,9%.
Aðgerðapakkinn sem er kynntur núna kemur í kjölfar þess að Rússar stöðvuðu gassölu til Þýskalands í síðustu viku tímabundið, að sögn vegna tæknilegra vandamála. Rússneski gasrisinn Gazprom sendi frá sér tilkynningu þar sem fram kom að leiðsla sem skiptir miklu máli fyrir gasflutninginn þurfi á viðgerð að halda.