Handtekinn fyrir að klífa Glerbrotið

Glerbrotið, eða The Shard, er 310 metrar á hæð og …
Glerbrotið, eða The Shard, er 310 metrar á hæð og varð hæsta bygging innan Evrópusambandsins í desember 2011 á meðan Bretar tilheyrðu sambandinu enn. Ljósmynd/Wikipedia.org/Cmglee

Þrír menn eru í haldi lögreglu í Lundúnum eftir að tilkynnt var um mann að klifra upp glerturninn The Shard, eða Glerbrotið, 310 metra háa byggingu í Southwark sem eitt sinn var hæsta bygging innan Evrópusambandsins.

Er lögregla kom á staðinn um sexleytið í morgun að staðartíma ásamt slökkviliði og sjúkrabifreiðum handtók hún 21 árs gamlan mann sem grunaður er um klifrið auk tveggja annarra sem haft höfðu uppi óspektir og áreitt vegfarendur við turninn.

Flögguðu á toppnum 2013

Myndskeið höfðu þá þegar birst af manninum á samfélagsmiðlum þar sem hann sást klífa bygginguna en slíkt hefur verið reynt nokkrum sinnum áður. Sex konur á vegum samtaka Grænfriðunga lögðu af stað upp Glerbrotið og tókst tveimur þeirra að klífa alla leið á topp þess í júlí 2013 og flagga þar fánanum „Björgum heimskautinu“ (Save the Arctic).

Tók þrekraunin 16 klukkustundir og allar konurnar voru handteknar á eftir en að sögn John Sauven, forstöðumanns Grænfriðunga í Bretlandi, gengu 50.000 nýir félagar til liðs við heimskautsherferðina meðan á prílinu stóð.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert