Sex látnir í fjallgöngu í Rússlandi

Klyuchevskaya Sopka gaus í fyrsta sinn á sögutíma árið 1697 …
Klyuchevskaya Sopka gaus í fyrsta sinn á sögutíma árið 1697 en Daniel Gauss kleif það fyrstur við þriðja mann í breska Billings-leiðangrinum árið 1788. Ljósmynd/Wikipedia.org/Tamten

Sex fjallgöngumenn eru látnir og björgunarfólk reynir nú að bjarga þeim sem eftir eru af tólf manna hópi sem hugðist klífa rússneska eldfjallið Kljútsjevskaja Sopka, hæsta virka eldfjall Evrasíu, á Kamtsjatka í Austur-Rússlandi.

Fjallið er 4.754 metra hátt og gnæfir yfir borginni Petrópavlovsk-Kamtsjatskí. Lagði klifurhópurinn af stað upp fjallið á þriðjudag og setti stefnuna á búðir í 3.300 metra hæð. Það var svo í gær sem syrta tók í álinn. Þá hröpuðu sex klifurmanna til bana þar sem þeir voru komnir í um 4.000 metra hæð. Talið er að fjórir þeirra hafi látist samstundis og tveir skömmu síðar.

Leiðsögumaður hópsins er enn fremur sagður fótbrotinn en ekki er vitað um ástand þeirra fimm sem þá er ógetið. Tveir sexmenninganna sem enn eru á lífi eru taldir hafast við í áðurnefndum búðum en fjórir í tjaldi í 4.000 metra hæð.

Í dag var tilraun gerð til að nálgast göngumenn með þyrlu en útilokað var að lenda henni vegna hífandi roks á fjallinu sem ýmsir frumbyggjaættbálkar á svæðinu telja heilagt.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert