Tíu manns létu lífið og fjöldi særðist í hnífstunguárásum í Kanada í dag. Árásirnar áttu sér stað í samfélagi frumbyggja, sem nefnist James Smith Cree Nation, og nálægt smábænum Weldon. Fórnarlömbin hafa hafa fundist á þrettán mismunandi stöðum.
Tveir eru grunaðir um verknaðinn og er þeirra nú leitað.
Að sögn lögreglu barst fyrsta tilkynningin um hnífstungu klukkan tuttugu mínútur í sex að morgni. Fljótlega fylgdu fleiri símtöl um hnífsstungur.
Talið er að árásarmennirnir hafi verið með ákveðin fórnarlömb í huga en aðra hafi þeir ráðist á af handahófi.