Fernt er talið af, flugmaður og par með dóttur sína, eftir að flugvél af gerðinni Cessna 551 hrapaði í Eystrasalt milli sænsku eyjarinnar Gotlands og bæjarins Ventspils í Lettlandi. Vélin er skráð í Austurríki og var á leið frá Spáni til Þýskalands þegar hún hrapaði í hafið innan lettneskrar lögsögu klukkan 19:45 að skandinavískum tíma, 17:45 á Íslandi.
Greinir sænska Aftonbladet frá því að brak úr vélinni sjáist nú á floti auk þess sem olíubrák sé greinanleg á haffletinum. Sænsk björgunarþyrla er nú á leið á slysstaðinn en Lars Antonsson hjá Sjó- og flugbjörgunarmiðstöð Svíþjóðar segir í samtali við blaðið að veik von sé til þess að nokkur finnist á lífi.
Lettneskar björgunarsveitir munu innan skamms taka við af þeim sænsku eftir því sem Aftonbladet segir frá enda hefur sænska þyrlan takmarkaðan tíma til að sveima yfir staðnum áður en þverrandi eldsneytisbirgðir neyða hana til baka. Sænska ríkisútvarpið SVT hefur eftir talsmanni sænska hersins að þar sé fylgst með aðgerðum en ekkert fékkst uppgefið um aðgerðir af hálfu hersins.
Aðdragandi slyssins þykir voveiflegur en vélin átti að lenda í Köln í Þýskalandi. Hún flaug hins vegar rakleiðis yfir borgina og hélt förinni áfram að sögn Dagens Nyheter. Þýsk flugumferðarstjórn reyndi ítrekað að ná sambandi við flugmanninn án þess að hafa erindi sem erfiði og fóru leikar að lokum svo að þýskar og danskar orrustuþotur voru sendar til móts við Cessna-vélina til að kanna málið.
Johan Walström hjá Siglingamálastofnun Svíþjóðar segir sænskum fjölmiðlum að orrustuflugmennirnir hafi engu sambandi náð við flugmann vélarinnar og er þeir færðu sig nær vélinni blasti mannlaus stjórnklefi við þeim. Fljótlega var farið að óttast um að eldsneytistankar vélarinnar tæmdust sem líkast til var það sem að lokum olli því að hún hrapaði.
Greinir þýska dagblaðið Bild frá því að skömmu eftir að vélin lagði upp í för sína frá Jerez á Suður-Spáni hafi flugmaðurinn tilkynnt um loftþrýstingsvandamál í farþegarýminu. Eftir það mun ekkert hafa heyrst frá honum.