Annar árásarmannanna fannst látinn

Annar árásarmannanna, Damien Sanderson (til vinstri), fannst látinn í dag.
Annar árásarmannanna, Damien Sanderson (til vinstri), fannst látinn í dag. AFP

Annar árás­ar­mann­anna tveggja, sem myrtu tíu manns og særðu fleiri í hnífstungu­árás­um í Kan­ada í gær, fannst látinn í dag að sögn lögreglu.

Árás­irn­ar áttu sér stað í sam­fé­lagi frum­byggja, James Smith Cree Nati­on, og ná­lægt smá­bæn­um Weldon. 

Damien Sanderson, sem er 31 árs gamall, fannst látinn af sárum en ekki virðist sem svo að hann hafi veitt sér þau sjálfur. Þetta segir Rhonda Blackmore, yfirlögreglustjóri hjá Saskatchewan lögreglunni.

Myles Sanderson, hinn árásarmaðurinn, er enn eftirlýstur. Lögreglan staðfesti einnig á fréttamannafundi í dag að árásarmennirnir tveir væru bræður.

Lögreglan segir að Myles gæti hafa særst en það hefur ekki verið staðfest. 

„Jafnvel þótt hann sé særður þýðir ekki að hann sé ekki hættulegur,“ sagði Blackmore og bætti við að Myles ætti langan afbrotaferil að baki en hann hefur áður verið handtekinn fyrir líkamsárás.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert