Árásarmannanna tveggja, sem myrtu tíu manns og særðu fleiri í hnífstunguárásum í Kanada í gær er enn leitað. Árásirnar áttu sér stað í samfélagi frumbyggja, James Smith Cree Nation, og nálægt smábænum Weldon.
Mennirnir tveir sem grunaðir eru um verknaðinn heita Myles Sanderson og Damien Sanderson. Ekki er vitað að svo stöddu hvað lá að baki árásinni.
Talið er þeir hafi flúið af vettvangi í svörtum Nissan Rogue jeppa. Kona sem býr nálægt árásarstaðnum segir að hinir grunuðu hafi stolið bílnum af bróður hennar.
Samkvæmt CBC hvarf Myles Sanderson í maí síðastliðnum eftir að hafa afplánað hluta af fangelsisdómi fyrir líkamsárás og rán.
77 ára ekkjumaður og 49 ára gömul kona eru á meðal fórnarlamba.
Diane Shier, íbúi bæjarins sagði í samtali við Saskatoon Star Phoenix í gær að sonur nágranna hennar, ekkilsins, hafi falið sig í niður í kjallara og hringt á lögregluna.
„Þetta var um klukkan 7.30 um morguninn. Eiginmaður minn var út í garði. Hann sá lögreglubíla og sjúkrabíla koma í bæinn. Þetta er lítill bær. Þetta er skelfilegt, alveg skelfilegt. Dyrnar hjá okkur eru enn læstar og við hættum okkur ekki út,“ sagði hún.
Ruby Works, annar íbúi á svæðinu, sagði að morðin myndu ásækja bæinn. „Það mun enginn hérna í bænum geta sofið aftur. Fólk á eftir að verða dauðhrætt við að opna dyrnar.“
Enn annar íbúi, Robert Rush, sagði að hann hefði skilið barnabarn sitt eftir heima til að kaupa afmælisköku handa konunni sinni. „Ég lét hana hafa tvær byssur og hafnaboltakylfu,“ sagði hann.