Rússneskur dómstóll hefur dæmt blaðamanninn fyrrverandi Ívan Safrónov í 22 ára fangelsi fyrir landráð eftir að hafa verið ákærður fyrir að hafa látið öðrum í té ríkisleyndarmál.
Rússneskir saksóknarar höfðu áður krafist 24 ára dóms yfir honum.
Um eitt hundrað manns sem söfnuðust saman í dómsalnum fögnuðu Safrónov og kölluðu „frelsi!“ eftir að dómurinn var kveðinn upp.
Sjálfstæðir fjölmiðlar í Rússlandi og almenn félagasamtök hafa átt undir högg að sækja í Rússlandi, sérstaklega eftir að innrásin í Úkraínu hófst í febrúar.
Safrónov, sem er 32 ára, starfaði í mörg ár hjá viðskiptablöðunum Kommersant og Vedómostí og var einn virtasti blaðamaður landins en hann skrifaði um varnarmál.
Hann var handtekinn árið 2020 eftir að hafa hætt í blaðamennskunni til að starfa sem ráðgjafi yfirmanns rússnesku geimferðastofunarinnar.