Leit stendur enn yfir í Kanada að tveimur mönnum sem eru grunaðir um að hafa stungið að minnsta kosti 10 manns til bana og sært 15 í gær.
Árásirnar voru gerðar í samfélagi frumbyggja, James Smith Cree Nation, og í nærliggjandi bæ, Weldon, í héraðinu Saskatchewan.
„Það sem gerðist í héraðinu okkar í dag er hryllilegt,“ sagði Rhonda Blackmore, yfirmaður hjá kanadísku lögreglunni, í gær. „Mikil leit stendur yfir að þeim tveimur sem eru grunaðir.“
Þeir heita Myles og Damien Sanderson og eru 30 og 31 árs gamlir. Þeir flúðu af vettvangi í bíl að loknum voðaverkunum.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði árásirnar „hryllilegar og sorglegar“ í tísti á Twitter og vottaði samúð sína. Hann hvatti íbúa til að fylgja fyrirmælum yfirvalda.
Hann bætti við að árásarmennirnir yrðu látnir svara til saka.
Please read my full statement on the attacks in Saskatchewan: https://t.co/YEYHR6utxo
— Justin Trudeau (@JustinTrudeau) September 5, 2022
Nokkrar mannskæðar árásir hafa verið gerðar í Kanada á undanförnum árum. Byssumaður sem þóttist vera lögreglumaður drap 16 manns í ríkinu Nova Scotia, annar drap sex og særði fimm í mosku í borginni Quebec, auk þess sem ökumaður keyrði á gangandi vegfarendur í borginni Toronto. Þar létust 10 og 16 særðust.