Kona var handtekin á eyjunni Tenerife á Spáni í dag fyrir að hafa sett á svið eigið mannrán til að reyna að hafa af móður sinni lausnargjald upp á 50 þúsund evrur. Elmundo segir frá.
Konan tók sjálfa sig upp á myndband þar sem sást bundið fyrir munninn á henni, hnífur upp að hálsinum og gerviblóðblettir á andlitinu.
Lögreglan leysti málið á innan við sólarhring og handtók fimm fjölskyldumeðlimi dótturinnar en hún, maki hennar og fjölskylda makans tóku öll þátt í fjárkúguninni.
Móðir konunnar tók út úr banka 50 þúsund evrur í reiðufé og var sagt að skilja peninginn eftir á ákveðnum stað á ákveðnum tíma.
Leitað var á heimili dótturinnar þar sem lögreglan fann stórt eggvopn, klút sem notaður var til að binda fyrir munninn á henni og flösku af gerviblóði.
Í frétt Elmundo kemur fram að móðirin hafi verið plötuð að minnsta kosti þrisvar sinnum áður til að greiða 45 þúsund evrur í lausnargjald fyrir að frelsa dóttur sína frá mannræningjum eftir að dótturinni átti að hafa verið hótað lífláti.