Mikil reiði ríkir meðal íbúa í kínversku borginni Chengdu eftir að myndskeið fór í dreifingu sem sýnir að yfirvöld reyndu að stöðva fólk sem reyndi að flýja heimili sín í kjölfar öflugs jarðskjálfta, en útgöngubann hafði verið sett á í Chengdu í kjölfar fjölgunar Covid-smita.
Íbúar segja að þeim hafi verið sagt að halda sig innandyra þrátt fyrir að skjálfti af stærðinni 6,6 hafi riðið yfir borgina í gær með þeim afleiðingum að hið minnsta 65 létust.
Fólk sem reyndi að komast út eftir skjálftann lenti nánast bókstaflega á vegg því búið var að læsa útgönguleiðum út úr byggingum vegna hertra sóttvarnaaðgerða. Íbúar Chengdu eru um 21 milljón talsins.
Kínversk stjórnvöld framfylgja svokallaðri núllstefnu í Covid-málum, sem þýðir að reglulega eru sett á útgöngubönn á stöðum þar sem smit hafa greinst.
Í einhverjum tilfella hafa fjölbýlishús, þar sem að minnsta kosti einn einstaklingur hefur greinst jákvæður, verið skilgreind sem „innsigluð svæði“. Það þýðir að íbúum er bannað að yfirgefa bygginguna, skiptir þá engum toga hvort viðkomandi hafi greinst með smit eður ei.
Myndskeið sem hafa verið birt á samskiptamiðlinum Douyin sýna óttaslegna íbúa á bak við læst hlið í kjölfar skjálftans. Fólkið hrópar á aðstoð og vill komast í burtu.
Í einu myndskeiði heyrist íbúi blóta öryggisvörðum í sand og ösku á sama tíma og hann hristir læst hlið að fjölbýlishúsi. Maðurinn heyrist segja: „Fljótir, opnið dyrnar, það er jarðskjálfti.“ Öryggisverðirnir heyrast svo segja að allt sé yfirstaðið, þ.e. að skjálftinn hafi liðið hjá.