Skotárásir glæpagengja valda Svíum hugarangri

Þann 19. ágúst var 31 árs gamall leiðtogi glæpasamtaka skotinn …
Þann 19. ágúst var 31 árs gamall leiðtogi glæpasamtaka skotinn til bana í Emporia-verslunarmiðstöðinni í Malmö. Árásarmaðurinn var 15 ára gamall. AFP

Skotárásum glæpagengja hefur farið fjölgandi vítt og breitt í Svíþjóð og þarlend yfirvöld eiga í erfiðleikum með að stöðva ofbeldið. Ástandið minnir víða á átakasvæði og málið er nú það sem sænskir kjósendur hafa einna mestar áhyggjur af fyrir komandi þingkosningar, en kosningarnar fara fram næsta sunnudag. 

„Þetta er sonur minn, hann Marley, þegar hann var 19 ára gamall,“ segir Maritha Ogilvie í samtali við AFP-fréttastofuna, og sýnir blaðamanni ljósmynd af brosandi ungum manni á heimili sínu í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar. 

Maritha Ogilvie sést hér með ljósmynd af syni sínum sem …
Maritha Ogilvie sést hér með ljósmynd af syni sínum sem var skotinn til bana fyrir sjö árum. Árásarmaðurinn var aldrei fundinn og málinu lokað 10 mánuðum eftir árásina. AFP

„Hann var skotinn í höfuðið þegar hann sat í bifreið með vini sínum,“ Ogilvie.

Árásin átti sér stað 24. mars árið 2015 í úthverfinu Vårby gård sem er suðvestur af Stokkhólmi. Málið hefur aldrei verið leyst og því var formlega lokað 10 mánuðum síðar. 

Árásir gerðar um hábjartan dag

Morð sem þessi snúast vanalega um hefndaraðgerðir á milli glæpagengja, sem að sögn lögreglu, lúta oftar en ekki stjórn erlendra glæpahópa sem hafa hreiðrað um sig í landinu. Þá eru slíkar árásir farnar að eiga sér stað æ oftar um hábjartan dag í almannarými.  

Ofbeldið tengist oftast átökum hópa sem vilja stýra markaðinum með fíkniefni og vopn. Einnig er um persónulegar deilur og hefndaraðgerðir glæpahópa að ræða.  

Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi sett meira fé til löggæslumála, …
Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi sett meira fé til löggæslumála, þá fer skotárásum og ofbeldiverkum glæpahópa fjölgandi. AFP

Ástandið í Svíþjóð, sem er eitt auðugasta lands heims og yfirleitt talið vera friðsælt og öruggt, er orðið með þeim hætti að Svíþjóð trónir nú á toppnum í Evrópu á lista yfir flest dauðsföll af völdum skotárása. 

Í skýrslu forvarnarsamtaka sem var birt í fyrra kom fram, að af 22 Evrópuríkjum var það aðeins Króatía sem var með fleiri skráð dauðsföll af völdum skotárása. Nú trónir Svíþjóð á toppnum og aukning slíkra árása hefur hvergi verið meiri undanfarinn áratug. 

Fleiri látnir af völdum skotárása í ár miðað við allt árið í fyrra

Þrátt fyrir að sænsk stjórnvöld hafi gripið til hertra aðgerða til að sporna gegn þessari þróun, m.a. aukið útgjöld til lögreglunnar og taka harðar á slíkum málum í dómskerfinu, þá fer tala látinna og særðra hækkandi.

Frá 1. janúar á þessu ári hafa 48 látið lífið af völdum skotvopna í Svíþjóð, á meðan alls létust 45 af völdum skotvopna í landinu í fyrra. 

Hér má sjá myndir af skotvopnum sem lögreglan í Rinkeby …
Hér má sjá myndir af skotvopnum sem lögreglan í Rinkeby hefur lagt hald á nýverið. AFP

Auk þess hefur sprengjuárásum farið fjölgandi, þar sem heimili og bifreiðar eru sprengdar í loft upp með handsprengjum. 

Kjósendur áhyggjufullir

Þetta veldur kjósendum miklu hugarangri og er það nú svo í fyrsta sinn sem kjósendur hafa meiri áhyggjur af þessum árásum, fremur en stöðunni í heilbrigðis- og menntamálum. 

Áður fyrr var ofbeldið meira bundið við svæði þar sem glæpahóparnir héldu sig á, en nú hefur það breiðst út á opinber svæði sem veldur hinum almenna kjósanda áhyggjum. En Svíþjóð hefur almennt þótt vera öruggt og friðsælt land. 

Þann 19. ágúst sl. var 31 árs gamall karlmaður skotinn til bana í Emporia-verslunarmiðstöðinni í borginni Malmö. Hann er sagður hafa verið leiðtogi glæpagengis í borginni. Nokkrum mánuðum áður hafði bróðir hans einnig látist. 

Árásarmaðurinn var 15 ára gamall unglingspiltur. 

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, heitir því að tekið verði á …
Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, heitir því að tekið verði á málinu. Sænskir kjósendur ganga að kjörborðinu næsta sunnudag. AFP

Viku síðar særðist ung kona og sonur hennar þegar þau urðu fyrir voðaskoti í almenningsgarði í Eskilstuna, sem er lítill bær vestur af Stokkhólmi. Íbúar þar eru aðeins um 67.000 talsins. 

Hægriflokkarnir, sem eru í stjórnarandstöðu, hafa heitið því að koma á lögum og reglu. 

Magdalenda Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur varið núverandi vinstristjórn, og lofar að grípa til aðgerða á landsvísu til að berjast gegn þessari vá sem ógni öllu landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert