Nýr heilbrigðisráðherra Bretlands, Therese Coffey, segist ekki ætla að afturkalla eða breyta lögum um þungunarrof eftir að ýmsar breskar stofnanir og samtök sem styðja og veita ráðgjöf um þungunarrof lýstu yfir áhyggjum sínum af skipun hennar í embættið.
Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, skipaði Coffey í embætti heilbrigðisráðherra í gær, en Coffey hefur áður kosið gegn því að lengja framkvæmdatíma þungunarrofa.
Samtök sem styðja við og veita ráðgjöf um þungunnarrof hafa ásakað Coffey um að setja sínar skoðanir fram yfir mat sérfræðinga í málefninu.
Coffey kaus nýverið gegn því að þungunarrofspillan yrði sett á almennan markað á Englandi og í Wales, en hægt var að fá pilluna senda heim í kórónufaraldrinum.
Kosið var um málið á einstaklingsgrundvelli en það merkir að atkvæði þingmanna þurftu ekki að vera í samræmi við stefnumál flokka þeirra.
„Ég er meðvituð um það að ég hef kosið gegn lögum um þungunarrof. Ég tek samt fram að ég er fyrst og fremst demókrati og ég ætla mér ekki að breyta eða afturkalla lög um þungunarrof,“ sagði Coffey í samtali við Sky News.