Lögreglan í Tennessee í Bandaríkjunum hefur fundið lík hinnar 34 ára Elizu Fletcher, sem var rænt þegar hún var úti að hlaupa á föstudag.
38 ára karlmaður, Cleotha Abston, hefur verið ákærður fyrir mannrán og morðið á Fletcher. Hann hefur áður hlotið dóm fyrir mannrán, að fram kemur í frétt BBC af málinu.
Fletcher, sem var kennari og tveggja barna móðir, fór út að hlaupa snemma á föstudagsmorgun. Þegar hún skilaði sér ekki til baka tilkynnti fjölskyldan lögreglu um hvarf hennar. Þau auglýstu jafnframt eftir henni og hétu 50 þúsund dollurum fyrir upplýsingar um hvar hún væri niðurkomin.
Lögreglan notaðist við upptökur úr öryggismyndavélum við rannsókn málsins, en þær sýna hvar karlmaður nálgast hana um fjögurleytið um morguninn, beita hana ofbeldi og þvinga inn í svartan pallbíl.
Lögregla fann lík Fletcher síðdegis á mánudag í yfirgefinni íbúð. Cleotha hafði þá þegar verið handtekinn og ákærður fyrir mannránið og fyrir að eiga við sönnunargögn. DNA úr honum fannst á skóm sem fundust nálægt þeim stað sem Fletcher sást síðast. Morði hefur nú verið bætt við ákæruna.
Fjölskylda Fletcher, sem var barnabarn og erfingi milljarðamæringsins Joseph Orgill III, sem rak járnvöruverslun í Tennessee um árabil, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna morðsins. Þau segja hana hafa veitt svo mörgum gleði og allir sem hafi kynnst henni minnist hennar með hlýju.
„Nú skiptir máli að minnast hennar og fagna því hve sérstök hún var og styðja við þá sem elskuðu hana,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni.