Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt til að sett verði verðþak á gas sem keypt er frá Rússlandi, en tillagan kemur aðeins nokkrum klukkutímum Vladimír Pútín, forseti Rússlands lýsti hugmyndinni sem kjánalegri.
Orkuverð hefur hækkað hratt eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst og segir forseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins nauðsynlegt að grípa til aðgerða, að fram kemur í frétt BBC.
„Við verðum að skera niður tekjur Rússa sem Pútín notar til að fjármagna þetta hörmulega stríð,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, þegar hún lagði fram tillöguna.
Greint var frá því í síðustu viku að fjármálaráðherrar G-7 ríkjanna ætluðu að setja verðþak á olíu frá Rússlandi í sama tilgangi. Í tilkynningu frá fjármálaráðherrunum kom fram að aðgerðirnar væru einnig hannaðar til að draga úr áhrifum stríðsins á alþjóðlegt orkuverð, aðallega í fátækari löndum.
Pútín hefur sagt að Rússar muni bregðast við verðþaki með því að stöðva alveg flæði orkugjafa frá landinu. Gas, olía eða kol verði ekki afhent til annarra landa ef það stríðir gegn hagsmunum Rússlands.
Leiðtogar Evrópuríkjanna hafa sakað Rússa um að vopnvæða gasútflutning landsins í viðbrögðum sínum við refsiaðgerðum Vesturlanda vegna stríðsins. Stjórnvöld í Kreml neita þeim ásökunum. Það liggur þó fyrir að skrúfað hefur verið fyrir Nord Stream 1 gasleiðsluna, sem liggur til Þýskalands.