Viðbragðsaðilar leita nú að hópi fólks í Andesfjöllunum sem ætlaði að halda til í trúarlegum hugleiðslubúðum í fjóra daga. Leitað er að fólkinu með drónum og hundum í fjöllunum í kringum La Grita í Táchira-ríki í Venesúela, að fram kemur í frétt BBC.
Samkvæmt opinberum tölum er um 16 til 20 einstaklinga saknað, en fjölmiðlar segja að hópurinn sé enn stærri. Ungbörn og börn eru meðal þeirra sem saknað er.
Ættingjar fólksins hafa ekki heyrt frá því síðan hópurinn hélt af stað í búðirnar þann 22. ágúst síðastliðinn. Fólkið hafði þá pakkað niður mat og útilegubúnaði fyrir fjögurra daga dvöl í búðunum.
Prestur í La Grita segir hópinn hafa fylgt konu sem nýlega sagðist hafa fengið vitrun frá Maríu mey. Í predikun sinni á sunnudaginn varaði presturinn fólk við hættunni sem væri fólgin í því að trúa í blindi fólki með öfgafullar skoðanir og héldi því fram að heimsendir væri í nánd.
Leitarflokkar kembdu svæðið í gær þar sem síðast sást til hópsins, en fundu hvorki tangur né tetur af fólkinu eða búnaði þess.