Leita enn annars árásarmannsins

Árásarmennirnir og bræðurnir Damien Sanderson og Myles Sanderson.
Árásarmennirnir og bræðurnir Damien Sanderson og Myles Sanderson. AFP

Enn er leitað annars árásarmannanna tveggja, sem myrtu tíu manns og særðu 18 í hnífstunguárásum í Kanada á sunnudag.

Árásarmennirnir, Myles Sanderson og Damien Sanderson, voru bræður og fannst Damien látinn í fyrradag. Myles, sem enn er leitað að, er grunaður um að hafa orðið bróður sínum að bana.  

Í kjölfar árásarinnar hófst umfangsmikil leit að bræðrunum um víðfeðmt svæði en lögreglan beinir nú sjónum sínum aftur að samfélagi frumbyggja, James Smith Cree Nation, þar sem árásin átti sér stað.

James Smith Cree Nation.
James Smith Cree Nation. AFP

Íbúar beðnir um að leita skjóls

Í gærkvöldi sendi lögreglan út neyðarskilaboð og varaði við því að henni hefði borist tilkynning um að mögulega hefði sést til hins grunaða, Myles Sanderson, á svæðinu.

Þá voru íbúar beðnir um að yfirgefa ekki heimili sín og leita tafarlaust skjóls. Klukkustund síðar var tilmælunum aflétt.

Ekki er enn vitað um ástæður árásarinnar en Myles á að baki sér langa sögu um ofbeldi og 60 sakfellingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert