Hlaut lífstíðardóm fyrir að myrða kennara

Lögreglan við framhaldsskólann í Malmö.
Lögreglan við framhaldsskólann í Malmö. AFP

Dómstóll í Svíþjóð hefur dæmt 18 ára nemenda í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða tvo kennara sína með exi. Pilturinn er sá yngsti til að vera dæmdur í lífstíðarfangelsi í Svíþjóð samkvæmt nútímalögum.

Hann var handtekinn skömmu eftir árásina sem var gerð í framhaldsskólanum Malmö Latin í mars á þessu ári. Kennararnir sem létust voru tvær konur á sextugsaldri.

„Þetta eru tvö mjög hrottaleg morð þar sem fórnarlömbin þjáðust mikið og upplifðu verulegan ótta við dauðann,“ sagði dómarinn Johan Kvart í og bætti við að ekki væri hægt að líta á gjörðir mannsins sem nokkuð annað en „sérstaklega miskunnarlausar“.

Ungir fengu áður vægari dóma

Nýlega var lögum breytt í Svíþjóð en áður fyrr fengu ungir afbrotamenn vægari dóma fyrir alvarlega glæpi.

Dómstóllinn sagðist ekki hafa tekist að komast að því hvers vegna pilturinn gerði árásina. Hann viðurkenndi aftur á móti verknaðinn og sagði fyrir dómi að honum fyndist ekkert pláss vera í samfélaginu fyrir sig og að hann hefði búist við því að hann myndi deyja í árásinni.

Geðrannsókn sýndi að maðurinn er á einhverfurófinu en að sögn dómsins var ekkert sem benti til þess að hann þjáðist af „alvarlegri geðröskun“.

Lögmaður mannsins, Anders Elision, hafði beitt sér fyrir vægari refsingu sökum geðrænna vandamála skjólstæðings síns. Hann sagði fjölmiðlum að úrskurðinum yrði áfrýjað.

Þeir sem hlotið hafa lífstíðardóm í Svíþjóð geta eftir 10 ár sótt um að refsingunni verði breytt, en lífstíðarfangelsi í landinu er að meðaltali 16 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert