Nýtt bóluefni gæti komið í veg fyrir 70% dauðsfalla

Myndin sýnir malaríusýktar moskítóflugur.
Myndin sýnir malaríusýktar moskítóflugur. AFP/Robert Thompson

Nýtt bóluefni gæti komið í veg fyrir 70% dauðsfalla úr malaríu fyrir árið 2030. Þetta segja breskir vísindamenn sem þróuðu bóluefnið.

Kemur fram í frétt Sky News að spáin hafi verið gerð eftir að klínískar rannsóknir í Afríku sýndu fram á að bóluefnið væri mjög árangursríkt í að verja börn fyrir sjúkdómnum en börn smitast oft af malaríu eftir moskítóbit.

Alþjóðaheilbrigðiseftirlitið (WHO) fær niðurstöðurnar seinna í mánuðinum og þegar hefur verið efnt til þess að 200 milljón skammtar af bóluefninu verði framleiddir á ári og gætu þeir kostað minna en fimm pund, en það jafngildir um 800 íslenskum krónum.

140 bóluefni hafa ekki virkað

Adrian Hill, prófessor og framkvæmdastjóri Jenner stofnunarinnar við háskólann í Oxford, leiddi rannsóknina en hann kveðst afar spenntur yfir niðurstöðunum.

„Fólk hefur reynt að framleiða bóluefni fyrir malaríu í meira en öld. Um það bil 140 mismunandi bóluefni fyrir malaríu hafa ekki virkað sem skyldi. Við teljum þessi gögn sýna fram á besta bóluefnið hingað til.“

Yfir 40 milljón börn sem búa á svæðum í Afríku, sunnan Sahara, eru með háa eða meðalháa smittíðni malaríu. Eitt barn undir fimm ára aldri deyr af sjúkdómnum á 75 sekúndna fresti, þrátt fyrir notkun fyrirbyggjandi lyfja, skordýraeiturs og rúmneta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert