Umkringdu hertekið þorp

Aukið mannfall hefur fylgt gagnsóknum Úkraínumanna, og má sjá hér …
Aukið mannfall hefur fylgt gagnsóknum Úkraínumanna, og má sjá hér aðstandendur syrgja fallinn hermann í St. Mikaels-klaustrinu í Kænugarði. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Hin óvænta gagnsókn Úkraínumanna í Karkív-héraði virðist ganga vel, en samkvæmt óstaðfestum rússneskum heimildum sóttu þeir fram um allt að 30-45 kílómetra í gær á þeim stöðum þar sem Úkraínumenn náðu að brjótast í gegnum varnir Rússa. Beinist sókn þeirra að borginni Kúpíansk, en þaðan geta þeir skorið á birgðalínur til Isíum og annarra borga sunnar í héraðinu.

Í gær voru einkum harðir bardagar í kringum þorpið Balaklíja, en þar náði Úkraínuher að umkringja nokkuð stóran hóp rússneskra hermanna. Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari í Kænugarði, segist hafa fengið það staðfest frá þremur mjög áreiðanlegum heimildum að þorpið sé umkringt, en það er þá í fyrsta sinn frá upphafi innrásarinnar sem Úkraínuher nær því. „Það eru ekki komnar nákvæmar tölur, en þetta mun vera nokkuð mikill fjöldi sem þarna er umkringdur (e. encircled),“ sagði Óskar þegar mbl.is hafði samband við hann seint í gærkvöldi.

Óskar segist hafa séð um tug ljósmynda af rússneskum hermönnum að gefast upp, og eru allar myndirnar frá svæðinu í kringum Balaklíja. Auk Balaklíja munu einnig vera harðir bardagar í kringum Sjevtsjenkóve, sem er á leiðinni til Kúpíansk.

Mannfall eykst með sókn

Óskar segir að jafnhliða gagnárásum Úkraínumanna í Kerson og í Karkív sé mannfall Úkraínumanna farið að aukast. „Opinberar mannfallstölur, sem ná til bæði fallinna, særðra, og týndra, þær voru dottnar niður í um 30 manns á dag,“ segir Óskar. Nú eru engar opinberar tölur gefnar út, þar sem Úkraínumenn vilja ljóstra sem minnstu upp um aðgerðir sínar. „En það segir sig sjálft að í stríði þá eykst mannfall þegar þú sækir fram,“ segir Óskar, sem fékk að taka ljósmyndir í útför eins hermanns í gærmorgun ásamt um 10-15 öðrum blaðamönnum.

Útförin fór fram í St. Mikaels-klaustrinu í Kænugarði, sem rekur sögu sína aftur til miðalda, og segir Óskar það vera forvitnilegt að sjá hvernig umhorfs er inni í rétttrúnaðarkirkjum. Til dæmis eru þar engin sæti, heldur standa allir. Þá, líkt og sjá má af meðfylgjandi mynd eru stórar helgimyndir, íkonar, á gullslegnum veggjum.

Óskar segir að bandarískir fjölmiðlamenn sem hann hafi verið í sambandi við hafi lent í því að alls engar upplýsingar væri að fá, en að þeir gætu þó sagt að það væri að fjölga í hópi þeirra sem kæmu særðir til baka frá vígstöðvunum.

„Þetta er bara stríð, og Úkraínumenn eru að sækja í sig veðrið. Mannfallið er ekki bara á einn veg,“ segir Óskar, en hann segir Úkraínumenn mjög bjartsýna á framhaldið. „Það er ljóst að þessi sókn í Karkív hefur komið Rússum algjörlega á óvart miðað við það hversu langt Úkraínumenn hafa náð að sækja fram.“

Erfitt að sjá sum andlitin aftur

Óskar var einnig viðstaddur sérstaka minningarathöfn sem haldin var á þriðjudaginn til að minnast þess að þá voru 40 dagar liðnir frá því að Rússar tóku stríðsfanga í Ólinívka-fangabúðunum af lífi með eldflaugaárás. Féllu þar rúmlega 50 manns, en í búðunum voru stríðsfangar sem varist höfðu af mikilli elju í Asovstal-stálverksmiðjunni í Maríupol.

Óskar segist hafa kannast við sum andlitin á minningarathöfninni frá mótmælum sem hann fór á í vor, en þá voru aðstandendur hermannanna að biðja um að hermönnunum yrði bjargað frá verksmiðjunni sem þeir voru að verja. Eftir uppgjöfina voru þeir sendir í fangabúðirnar í Ólenívka, en þegar upp komst um pyndingar Rússa á stríðsföngunum var stríðsföngunum smalað á einn stað í búðunum, fangaverðir fluttir frá og svo skotið með eldflaugum á búðirnar. Rússar reyndu svo að kenna Úkraínumönnum um ódæðið.

Aðstandendur stríðsfanganna sem myrtir voru í Ólenívka-fangabúðunum minntust ættingja sinna …
Aðstandendur stríðsfanganna sem myrtir voru í Ólenívka-fangabúðunum minntust ættingja sinna á þriðjudaginn. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson

Athöfnin fór fram á St. Sofíu-torginu í Kænugarði, en þar hafa flestir viðburðir farið fram frá lokum Euromaidan-mótmælanna 2014. Óskar segir torgið táknrænt, því að í þeim mótmælum hafi mótmælendur fengið grið þar þegar þáverandi stjórnvöld voru að reyna að kveða niður mótmælin.

„Ég verð að segja að það var frekar erfitt að sjá þessar fjölskyldur syrgja ættingja sína,“ segir Óskar, sem segir annars ekki láta mikið á sig fá.

Aðstandendur stríðsfanganna sem myrtir voru í Ólenívka-fangabúðunum minntust ættingja sinna …
Aðstandendur stríðsfanganna sem myrtir voru í Ólenívka-fangabúðunum minntust ættingja sinna á þriðjudaginn. Í bakgrunni má sjá einn af turnum St. Sofíu-dómkirkjunnar. Ljósmynd/Óskar Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert