Ríkisstjórinn í New York-ríki í Bandaríkjunum hefur lýst yfir neyðarástandi vegna útbreiðslu lömunarveiki.
Heilbrigðisyfirvöld hafa greint frá því að veira sem getur valdið mænusótt, eða lömunarveiki, hafi greinst í sýnum sem tekin hafa verið úr skólpvatni í New York-borg og fjórum sýslum þar í kring, að því er BBC greinir frá.
Aðeins eitt tilfelli hefur verið staðfest hingað til sem var það fyrsta í Bandaríkjunum í tæpan áratug, þegar óbólusettur maður greindist með veiruna í júlí.
Embættismenn í New York-ríki segja að bólusetningarhlutfall sé of lágt í sumum hlutum ríkisins. Yfirlýsingu um neyðarástand sé ætlað að auka bólusetningartíðni.
Lömunarveiki var að mestu útrýmt í landinu þegar bólusetningar hófust árið 1955. Engin lækning er við lömunarveiki, en hægt er að koma í veg fyrir smit með bóluefni.
Veiran, sem hefur aðallega áhrif á börn, veldur slappleika í vöðvum og lömun, en í alvarlegustu tilvikunum varanlegri fötlun og jafnvel dauða.
„Ef þú eða barnið þitt eruð óbólusett er hættan á lömunarveiki raunveruleg,“ sagði Dr. Mary Bassett, heilbrigðisfulltrúi New York-ríkis í yfirlýsingu.