Tímaritið Prince William Living, sem flytur tíðindi frá sýslu, rétt fyrir utan Washington í Bandaríkjunum sem kennd er við Vilhjálm Bretaprins (e. Prince William County Virginia), hefur fengið talsvert af samúðarkveðjum sem ætlaðar eru prinsinum.
Sýslan sem um ræðir tók nafn sitt árið 1731, í höfuð á hertoganum af Cumberland, sem var þriðji sonur Georgs II Bretakonungs.
Vefsíða tímaritsins er meðal efstu tenglanna sem birtast þegar fólk slær inn „Prince William“ í leitarvél Google.
Þá kemur einnig upp vefsíða bresku konungsfjölskyldunnar.
Einhverjir hafa þó ekki vandað valið betur en svo að þeir hafa smellt á tengilinn sem leiðir þá inn á vefsíðu tímaritsins. Þar koma fram tengiliðaupplýsingar, sem fólk hefur nýtt sér ótrautt til þess að koma á framfæri samúðarkveðjum vegna fráfalls drottningarinnar.
Starfsfólk tímaritsins, sem telur aðeins örfáa einstaklinga, hefur átt í fullu fangi með að taka á móti kveðjunum, eftir andlát Elísabetar heitinnar Bretadrottningar.
Meðal annars hefur fólk sent tímaritinu teikningar af meðlimum konungsfjölskyldunnar, ljóð, fyrirspurnir og jafnvel boð um aðstoð við jarðaförina.
Rúmlega 40 erindi berast skrifstofunni daglega, alls staðar að úr heiminum. Meðal annars frá Indlandi, Japan, Egyptalandi, Suður Ameríku og jafnvel frá Bretlandi.
Ritstjóri tímaritsins nefnir nokkur dæmi, en borist hafa umsóknir um störf í höllinni og í einu erindinu spurði maður hvort hann gæti ekki orðið næsti konungur Bretlands, nú þegar drottningin væri látin.
„Ég svaraði bara og benti honum á að senda inn formlega umsókn, hver er ég til þess að standa í vegi hans?“