Undraskjót leiftursókn

Úkraínskur hermaður stendur á skriðdreka í Karkív-héraði.
Úkraínskur hermaður stendur á skriðdreka í Karkív-héraði. AFP/Juan Barreto

Úkraínu­her hef­ur nú frelsað bæði Kúpí­ansk og Isíum und­an yf­ir­ráðum Rússa, en borg­irn­ar tvær eru mik­il­væg­ir hlekk­ur í birgðakeðju Rússa í norðaust­ur­hluta lands­ins. Þá benda óstaðfest­ar fregn­ir til þess að þeir hafi hörfað frá borg­inni Lím­an í Do­netsk-héraði.

Kúpí­ansk féll á fyrstu vik­um stríðsins, en mik­il­væg­ir veg­ir liggja í gegn­um borg­ina. Þá nýttu Rúss­ar sér Isíum til þess að herða á sókn sinni í Lúhansk-héraði í sum­ar. Nái Úkraínu­menn að halda borg­un­um hafa þeir skert veru­lega getu Rússa til að halda uppi vörn­um í aust­ur­hluta lands­ins.

Leift­ur­sókn Úkraínu­manna, sem hófst á miðviku­dag­inn, hef­ur nú náð að þrýsta Rúss­um aft­ur um rúm­lega 50 kíló­metra eða meira þar sem sókn­ir þeirra ná sem lengst. Hafa jafn­vel borist óstaðfest­ar fregn­ir um að Úkraínu­menn séu komn­ir að Svatovo í Lúhansk-héraði, sem er um 50 kíló­metr­um frá Kúpí­ansk, og um 100 kíló­metr­um frá þeim stað sem víg­lín­an var á í upp­hafi síðustu viku.

Oleksí Arestovit­sj, hernaðarráðgjafi Volodimírs Selenskí Úkraínu­for­seta, sagði fyrr í dag að Úkraínu­menn ættu nú í vanda með að finna stað fyr­ir alla stríðsfang­ana sem þeir hefðu tekið til fanga. Yf­ir­lýs­ing hans bend­ir til þess, sem óstaðfest­ar rúss­nesk­ar heim­ild­ir hafa einnig haldið fram, að al­menn­ur flótti hafi brostið á víða þar sem Úkraínu­menn sóttu fram.

Á sama tíma og Úkraínu­her sæk­ir hratt fram í austri, hef­ur gagn­sókn hans í suðri miðað áfram hægt og bít­andi. Aðstæður þar eru hins veg­ar erfiðari fyr­ir sókn­ir, þar sem mikið er um opin landsvæði sem veita fót­gönguliði lítið skjól.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert