Það hefur nú verið staðfest að útför Elísabetar II drottningar muni fara fram mánudaginn 19. september í Westminster Abbey í Lundúnum.
Útförin mun jafnframt marka síðasta dag þjóðarsorgar, að því er BBC greinir frá.
Þjóðhöfðingjum alls staðar úr heiminum verður boðið að mæta í útförina til að minnast drottningarinnar. Einnig er búist við að háttsettir breskir stjórnmálamenn og fyrrverandi forsætisráðherrar verði viðstaddir.
Karl III Bretlandskonungur samþykkti fyrr í dag að dagur útfarar móður hans yrði frídagur í Bretlandi.
Konungar og drottningar Bretlands hafa verið krýnd í kirkjunni og þar giftist Elísabet Filippusi prins árið 1947.