Í dag eru tuttugu og eitt ár síðan hryðjuverkaárásirnar á tvíburaturnana í New York og Pentagon-bygginguna í Washington í Bandaríkjunum voru framdar.
Tæplega 3000 manns létu lífið þann 11. september árið 2001 þegar meðlimir hryðjuverkasamtakanna Al-Qaeda rændu fjórum farþegaflugvélum og stýrðu þeim á byggingar í Bandaríkjunum.
Tveim vélum var stýrt á tvíburaturnana og einni á skrifstofur varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, Pentagon. Fjórða vélin átti að fljúga á bandaríska þinghúsið en hrapaði á engi í fylkinu Pennsylvaníu.
Ættingjar fórnarlambanna, lögreglumenn, slökkviliðsmenn og kjörnir fulltrúar í New York-borg söfnuðust saman við minnisvarða sem er tileinkaður fórnarlömbunum í dag. Voru nöfn fórnarlambanna lesin upp eins og venja er fyrir.
Bjöllum var hringt og kyrrðarstundir fóru fram klukkan 08:46 og 09:03, en það var einmitt á þeim tíma fyrir tuttugu og einu ári þegar flugvélarnar tvær flugu inn í tvíburaturnana.