Forseti Frakklands og forseti Rússlands skiptust í dag á varnaðarorðum vegna kjarnorkuversins í Saporísja héraði í Úkraínu. Virtust þeir sammála um hvert verndarandlagið skyldi vera, en ekki um það hver ógnin væri.
Í tilkynningu frá rússneskum yfirvöldum var haft eftir Vladimír Pútín, forseta Rússlands, að hann hafi varað franskan kollega sinn við þeirri gjöreyðileggingu sem það hefði í för með sér ef „árásum Úkraínumanna linnti ekki“ á rússneska yfirráðasvæðið umhverfis kjarnorkuverið í Saporísja.
Pútín sagði jafnframt að rússneskir sérfræðingar hefðu nú þegar stigið skref í átt að því að tryggja öryggi kjarnorkuversins, og að rússnesk stjórnvöld væru reiðubúin til að vinna með kjarnorkumálanefnd Sameinuðu þjóðanna. Finna þurfi pólitískt-hlutlausa lausn.
Í símtalinu sem Pútín vísar til, kveðst Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hafa bent Pútín á það að hernám Rússa sé í raun ástæðan fyrir þeirri ógn sem steðji að kjarnorkuverinu.
Óskaði hann eftir því að Rússar dragi vopn sín til baka af svæðinu.
Loks hélt Pútín því fram við Macron að Úkraína væri að beita vopnum frá vesturlöndunum gegn óbreyttum borgurum í Donbass héruðum Úkraínu, þar sem Rússar færu með yfirráð.