Raforkuframleiðslu hefur verið hætt í stærsta kjarnorkuveri í Evrópu í Saporisjía í Úkraínu en kjarnorkuverið lenti í víglínu á milli rússneskra og úkraínskra hersveita sem kunnugt er.
Orkufyrirtækið Energoatom greindi frá því í fréttatilkynningu að slökkt hefði verið á síðasta virka kjarnaofninum í kjarnorkuverinu í nótt.
Í tilkynningunni kemur einnig fram að í framhaldinu eru gerðar viðeigandi ráðstafanir til að kæla ofninn.
Bardagar nærri kjarnorkuverinu hafa verið áhyggjuefni um hríð þar sem hætta á alvarlegu slysi var raunhæf.