Tiltekin svæði eru vatnslaus, og enn fleiri rafmagnslaus í austurhluta Úkraínu. Yfirvöld kenna rússneska hernum um ástandið.
Talið er að Rússar hafi , í kvöld, beint vopnum sínum að mikilvægum innviðum á nokkrum svæðum sem hafi ollið því að rafmagn sló út víða þar sem Úkraínumenn hafa undanfarna daga, endurheimt yfirráð.
Oleg Synegubov, héraðsstjóri Karkív, segir Rússa hafa skotið niður innviði og neyðarsveitir vinni nú að því að slökkva elda umhverfis rústirnar í samnefndri borg.
Héraðsstjórinn í Dníprópetrovsk, Dmítró Resnisjenskó, telur Rússa ábyrga fyrir rafmagnsleysi í sínu héraði. Hann segir þennan gjörning til marks um það að Rússar geti ekki viðurkennt þann ósigur sem þeir hafa beðið á vígvellinum.
Minnst 135 bæir og þorp í Sumí héraði Úkraínu eru þar að auki án vatns og rafmagns.