105.000 milljarða eyðilegging

Olga Dibrova, sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi, með aðsetur í Helsinki, …
Olga Dibrova, sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi, með aðsetur í Helsinki, telur fáránlegt að umheimurinn eigi áfram viðskipti við Rússa og leyfi Pútín að hafa öll ráð í hendi sér, svo sem með því að stjórna orkumálum í Evrópu. Ljósmynd/Úkraínska sendiráðið í Helsinki

„Ég fæddist í Kryvyi Rih í Suðaustur-Úkraínu sem er þekkt fyrir að vera ein lengsta borg heims, hún er 120 kílómetrar á lengd,“ segir Olga Dibrova, sendiherra Úkraínu í Finnlandi, í samtali við mbl.is en embættinu í Finnlandi fylgir sendiherrastaða gagnvart Íslandi.

Auk gríðarlegrar lengdar fæðingarborgarinnar er þar einnig mikill járniðnaður og auðugar járnnámur. „Vegna alls þessa iðnaðar er Kryvyi Rih full af verkfræðingum, ég kem sjálf úr verkfræðingafjölskyldu,“ segir Dibrova frá.

„Mig langar fyrst af öllu að taka það fram að ég er mjög stolt af því að fá að vera fulltrúi Úkraínu gagnvart Íslandi. Ég er mjög snortin af framtaki Íslands í mannúðarmálum og þakklát fyrir þá hjálp sem þjóðin hefur veitt Úkraínu og úkraínsku þjóðinni,“ heldur sendiherrann áfram og kveðst hafa starfað innan utanríkisþjónustunnar í rúm 20 ár. „Ég hef tvisvar verið í Tyrklandi auk þess að gegna ýmsum stöðum í úkraínska utanríkisráðuneytinu, nú síðast sem siðameistari [eða prótókollstjóri]. Finnland og Ísland er fyrsta sendiherrastaðan mín.“

Hvaða lærdóm má draga af stríðinu?

Alvara lífsins er næst á dagskrá eftir inngangsspjall um uppruna og starfsferil sendiherrans. Ættjörð Dibrovu hefur sætt ofríki og blóðugu innrásarstríði nágrannaríkisins Rússlands síðan í febrúar eins og varla hefur farið fram hjá nokkru mannsbarni í Evrópu. Hún er spurð hvað önnur Evrópuríki geti lært af atburðum í Úkraínu síðustu sex mánuði – og reyndar allar götur síðan Rússar innlimuðu Krímskaga með vopnavaldi árið 2014.

Volódimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði nýlega að Úkraínumenn hygðust vinna …
Volódimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði nýlega að Úkraínumenn hygðust vinna allt tapað landsvæði til baka, þar á meðal Krímskagann, og sendiherrann telur það markmið nást með þrautseigju og samstöðu. AFP

„Þetta er mikilvæg spurning,“ svarar Dibrova, „Rússar réðust á Úkraínu fyrir átta árum vegna þess að þeir töldu sig eiga rétt á því að draga upp nýtt pólitískt landakort. Pútín og hans stjórn, auk þess hluta rússnesks almennings sem styður ofríki Rússa í garð Úkraínu, hafa aldrei álitið Úkraínu sjálfstætt ríki og Úkraínumenn sjálfstæða þjóð sem kýs sér sín örlög sjálf,“ heldur hún áfram.

Þrátt fyrir beinar yfirlýsingar Pútíns um að ætla sér að stjórna Úkraínu og kúga þjóðina og hamslausa árásargirni hans allar götur síðan 2014 haldi umheimurinn áfram að eiga viðskipti við Rússa og leyfi Pútín að sitja við stjórnvölinn, svo sem með því að stjórna orkumálum í Evrópu. Það sé miður að Úkraínumenn þurfi að greiða dýru verði áminningu til Evrópu og alls heimsins um að lýðræði og alþjóðlegt regluverk grunngilda skuli standa vörð um með öllum tiltækum ráðum.

„Það snýst um sameiginlega framtíð okkar og þau gildi sem eru hornsteinar samfélaga. Það er það sem læra má af þessum atburðum og ég vona svo sannarlega að við minnumst þess um alla framtíð að áætlanir gerðar af skammsýni með skammtímalega einstaklingshagsmuni að leiðarljósi geta fætt af sér skelfingu, dauða þúsunda og flótta milljóna, lönd án framtíðar,“ segir Dibrova.

Hún kveðst þeirrar skoðunar að gefi fólk sig að því af einurð að verja framtíð sína felist hluti þeirra varna í því að allir þeir sem ábyrgð bera á stríðsglæpum, þjóðarmorðum og glæpum gegn mannkyni séu dregnir fyrir dóm og svo búið um hnútana að alþjóðleg lög og stofnanir séu í stakk búin til að tryggja frið og öryggi.

1.200 menntastofnanir og 1.200 sjúkrahús

Hvernig skyldi þá daglegt líf í Úkraínu vera nú, eftir rúmlega sex mánaða skálmöld þar sem Rússar hafa engu eirt og ekki skirrst við að beina vopnum sínum að óbreyttum borgurum jafnframt því að sækja að herjum nágrannaríkisins af alefli? Þola innviðir landsins álagið og að hve miklu leyti er atvinnulíf Úkraínu virkt?

„Stöðug hætta á flugskeytaárásum er daglegur veruleiki hvers króks og kima lands míns,“ svarar sendiherrann, „allar stærri borgir og bæir gætu orðið fyrir slíkum árásum hvenær sem er. Rússar vilja brjóta niður hagkerfi Úkraínu, gera okkur að föllnu ríki [e. failed state] sem á ekki möguleika á að standast þrýstinginn frá Rússlandi og áhrif þaðan. Fimmta júlí nam tjón á innviðum af völdum innrásarinnar rúmlega hundrað milljörðum dala [14.000 milljörðum íslenskra króna]. Búið er að eyðileggja meira en 1.200 menntastofnanir, 1.200 sjúkrahús, mörg þúsund kílómetra af gas- og vatnsleiðslum og rafmagnslínum auk þess sem vegir og járnbrautarteinar hafa verið eyðilagðir eða skaddaðir,“ segir Dibrova.

Ofríki Rússa mótmælt harðlega með Hallgrímskirkju og Leif heppna í …
Ofríki Rússa mótmælt harðlega með Hallgrímskirkju og Leif heppna í baksýn. mbl.is/Óttar

Hún segir um þriðjungssamdrætti þjóðarframleiðslu í Úkraínu spáð árið 2022. Rússar hafi skemmt eða eyðilagt um þriðjung innviða landsins. Það tjón að viðbættum skerðingum á tekjum og fjárfestingum nemi 750 milljörðum dala [105.000 milljörðum íslenskra króna]. „Ríkisstjórn Úkraínu gerir allt sem í hennar valdi stendur til að halda hagkerfinu á floti, flytja starfsemi frá stríðssvæðum, draga úr skriffinnsku, koma upp lánakerfi fyrir fyrirtæki, finna húsnæði og ný störf handa fólki sem neyðst hefur til að flýja heimabæi sína. Á svæðum sem endurheimt hafa verið úr klóm Rússa er verið að byggja upp nauðsynlegustu innviði og íbúðarhúsnæði á ný,“ segir hún af aðgerðum stjórnvalda.

Tilbúin í allar áskoranir

Sendiherrann kveður samstöðu þjóðarinnar sem aldrei fyrr þrátt fyrir að hún fari um dimman dal efnahagslega. Öll þjóðin vinni af alefli, til dæmis sinni mörg fyrirtæki í einkageiranum nú því tvöfalda hlutverki að sinna eigin starfsemi og um leið reyna að hjálpa hernum eftir megni auk fólks sem misst hefur heimili sín. Ótal sjálfboðaliðar vinni allan sólarhringinn við hvers kyns aðstoð við her og nauðstadda. „Við erum tilbúin að takast á við allar áskoranir eins lengi og við þurfum þess en okkur er sár þörf á alhliða fjárhags- og mannúðaraðstoð til að bjarga hagkerfi okkar.“

„Rússar vilja brjóta niður hagkerfi Úkraínu, gera okkur að föllnu …
„Rússar vilja brjóta niður hagkerfi Úkraínu, gera okkur að föllnu ríki sem á ekki möguleika á að standast þrýstinginn frá Rússlandi og áhrif þaðan,“ segir sendiherrann. Ljósmynd/Úkraínska sendiráðið í Helsinki

Olga Dibrova kveður Úkraínumenn sannfærða um að sigurinn verði þeirra á efsta degi, rúmlega 93 prósent þjóðarinnar trúi því af einlægni. „Mig langar líka til að segja þér frá öðru bjartsýnismáli okkar, 69 prósent Úkraínumanna trúa því að Úkraína gangi í Evrópusambandið á næstu fimm árum og 76 prósent styðja að landið verði aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. Þessar tölur eru því til jarteikna að við erum ósigrandi þjóð sem berst ekki aðeins fyrir tilveru sinni heldur fyrir framtíð allrar Evrópu og stöðu sinni í Evrópufjölskyldunni,“ segir hún.

Svipta Rússland öllum ráðum

Nú er það ljóst að Vladimír Pútín er ekki ætlað eilíft líf frekar en öðrum í heimi hér og hann mun því ekki stjórna Rússlandi um alla framtíð. Hverju vill sendiherrann spá um næsta forseta Rússlands og stjórnvöld hans? Getur það verið að áfram muni stjórnmálamenn sem hafa horn í síðu Úkraínu stjórna Rússlandi?

„Því er ekki auðsvarað,“ segir Dibrova réttilega, „ég tel að eina lausnin eins og málum er nú háttað sé að einangra þetta land [Rússland] algjörlega, efnahagslega og pólitískt, svipta það öllum ráðum til að halda áfram hernaði gagnvart Úkraínu og valda meira tjóni annars staðar. Því næst þarf að endurheimta Úkraínu að fullu, þar með talið Krímskagann, og refsa öllum þeim sem ábyrgð bera á glæpunum í Rússlandi, þar á meðal Pútín, ríkisstjórn hans, þingmönnum, herstjórnendum, áróðursblaðamönnum og öllum öðrum sem styðja og eiga sér eitthvert hlutverk í þessum grófu brotum gegn alþjóðalögum. Takist okkur þetta gjörbreytist pólitíska landslagið í Rússlandi,“ segir Dibrova af sannfæringu.

Olga Dibrova vill svipta Rússland öllum tækjum og tólum sem …
Olga Dibrova vill svipta Rússland öllum tækjum og tólum sem geri landinu kleift að ráðast með oddi og egg gegn öðrum þjóðum. AFP

Hún heldur áfram og segir nauðsynlegt að svipta Rússland öllum tækjum, tólum og tækni sem geri því kleift að halda vargöldinni í Úkraínu áfram og ógna öllum heiminum. Rússar taki rétta ákvörðun þegar þeir viðurkenni ábyrgð sína á ákvörðunum og gjörðum sinnar pólitísku forréttindastéttar (hér notar Dibrova hugtakið „political elite“) sem þeir hafi kosið í áratugi.

Fyrir skömmu greindi mbl.is frá starfi stoðtækjafyrirtækisins Össurar í Úkraínu og ræddi við úkraínska hermanninn Ruslan Serbov sem missti fótinn í orrustunni um Maríupol í vor. Hvernig líst Dibrovu á samstarf Össurar við úkraínska stoðtækjafræðinga?

„Mig langar til að nota þetta tækifæri til að koma innilegu þakklæti okkar á framfæri til allrar íslensku þjóðarinnar fyrir að sýna Úkraínu svo ríkulega samstöðu á ögurstundu auk þess að aðstoða okkur á alla lund, þar á meðal á vettvangi mannúðarmála, fjárhags og ekki síst gagnvart Úkraínumönnum sem eru flóttamenn á Íslandi. Við erum þakklát íslensku ríkisstjórninni fyrir að vera virk í samhæfingu og stuðningi auk fleiri mikilvægra þátta,“ svarar Dibrova.

Hún segir aðstoð á borð við þá sem Össur hafi veitt særðum hermönnum og borgurum algjörlega ómetanlega. Forsetafrúr Úkraínu og Íslands hafi einmitt rætt saman í síma nú fyrir skemmstu þar sem þessa hjálp hafi meðal annars borið á góma og mikilvægi íslensks stuðnings við ríkið stríðshrjáða.

Hyggjast vinna allt landsvæði til baka

Ekki er langt síðan Volódimír Selenskí Úkraínuforseti lét þau orð falla að hann hygðist gera allt sem í hans valdi stæði til að endurheimta Krímskagann. Telur Dibrova líklegt að það takmark náist í næstu framtíð?

„Krím er Úkraína. Rússar hafa þverbrotið öll viðmið alþjóðalaga. Ef við sýnum samstöðu, og að ég tali nú ekki um ef við fáum alhliða hernaðarlega aðstoð, mun okkur takast að vinna allt úkraínskt landsvæði til baka og þar tel ég Krímskagann að sjálfsögðu með,“ segir sendiherrann af einurð, „við höfum notið ríkulegrar aðstoðar annarra þjóða, og þar er Ísland engin undantekning sem sýnir svart á hvítu hve sterk tengsl landanna eru.“

Rússland og Úkraína undirrituðu í sumar tímamótasamning við Sameinuðu þjóðirnar …
Rússland og Úkraína undirrituðu í sumar tímamótasamning við Sameinuðu þjóðirnar og Tyrkland um að hefja flutning á korni á ný. AFP

Áfram af stuðningi á alþjóðavettvangi. Hvernig metur Dibrova stuðning annarra Evrópulanda og Bandaríkjanna síðasta hálfa árið? Geta lönd sem ekki halda úti her, svo sem Ísland, gert meira til að styðja við bakið á Úkraínumönnum á ógnaröld?

„Alþjóðlegur stuðningur við Úkraínu er mjög margþættur. Við erum þakklát öllum þjóðum sem veitt hafa okkur stuðning í þessu miskunnarlausa stríði. Ég skal gefa þér örfá dæmi. Evrópusambandið og fjárhagsstofnanir þess hafa skuldbundið sig til að verja 5,4 milljörðum evra [760 milljörðum íslenskra króna] til að styðja við efnahagslega endurreisn Úkraínu, veita neyðarhjálp og mannúðaraðstoð. Þá má ekki gleyma hernaðaraðstoð sem metin er á 2,5 milljarða evra [352 milljarða íslenskra króna],“ segir Dibrova og heldur áfram.

Hátæknivopn breyta ástandinu á vígvöllunum

„Bandaríkin hafa varið 13,5 milljörðum dala [1.892 milljörðum íslenskra króna] í öryggisaðstoð til handa úkraínsku fullveldi. Ekki er lengra síðan en 24. ágúst, sem er þjóðhátíðardagur Úkraínu, að forseti Bandaríkjanna kynnti stærsta hjálparpakkann síðan 24. febrúar, daginn sem Rússar réðust inn í Úkraínu,“ segir hún og nefnir enn fremur ríkulega aðstoð Breta.

„Ég tek sérstaklega fram að ástandið á vígvöllunum hefur breyst okkur í hag, þökk sé afhendingu hátæknivopna sem eru gríðarlega öflug, svo sem MLRS-flugskeytakerfanna. Öll fjárhagsaðstoðin hefur rétt efnahag Úkraínu mjög vel af, þar á meðal má nefna aðstoð frá Íslandi gegnum Alþjóðabankann. Eins og ég kom að áðan höfum við notið mjög margþættrar aðstoðar frá Íslandi. Ef ég á að nefna efnislega hluti væri það vel þegið ef einkageirinn á Íslandi gæti verið hjálplegur með matar- og lyfjasendingar og annað sem styrkir á stríðstímum. Annars ítreka ég bara þakklæti mitt til Íslendinga,“ segir sendiherrann.

Úkraínski herinn skýtur flugskeyti að rússneskum innrásarher í borginni Kerson.
Úkraínski herinn skýtur flugskeyti að rússneskum innrásarher í borginni Kerson. AFP/Anatolii Stepanov

Lokaspurning. Hvernig sér Olga Dibrova, sendiherrann frá Kryvyi Rih, framtíð þjóðar sinnar fyrir sér?

„Fyrst þurfum við að sigra í þessu stríði og endurheimta fullveldi Úkraínu með landamærum sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar. Í júlí gaf ríkisstjórn okkar út Bataáætlun Úkraínu [National Recovery Plan of Ukraine] á ráðstefnu um stríðið í Lugano í Sviss. Hún er í þremur þrepum, að koma lífi fólks aftur á réttan kjöl, huga að innviðauppbyggingu og það þriðja og síðasta er aðild að Evrópusambandinu,“ segir Dibrova.

Aðild að NATO hryggjarstykkið

Hún rifjar upp að í sumar hafi Úkraína hlotið stöðu umsækjanda um aðild og nú sé, þrátt fyrir að stríð geisi í landinu, unnið að því af kappi að uppfylla skilyrði sambandsins fyrir inngöngu áður en aðildarviðræður hefjist.

„Við erum harðákveðin í að vinna af alefli á öllum þessum þremur þrepum vegna þess að markmið okkar og draumur er að verða fullgilt aðildarríki lýðræðissamfélags álfunnar, blómstra og búa við öryggi þar sem auðvitað framtíðaraðild Úkraínu að NATO er veigamikill þáttur. Sú aðild verður hryggjarstykkið í öryggismálum Úkraínu meðan moldir og menn lifa,“ segir Olga Dibrova, sendiherra Úkraínu í Finnlandi og gagnvart Íslandi, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert