„Eitt er víst...“

Jimmie Åkesson á kosningavöku Svíþjóðardemókrata á Elite Hotel Marina Tower, …
Jimmie Åkesson á kosningavöku Svíþjóðardemókrata á Elite Hotel Marina Tower, skammt frá Stokkhólmi, í gærkvöldi. AFP/Stefan Jerrevang

„Eitt er víst og það er að við erum næststærsti stjórnmálaflokkur Svíþjóðar,“ sagði Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókratanna, á kosningavöku flokksins í nótt. Þrátt fyrir það er ekki reiknað með endanlegum tölum úr sænsku þingkosningunum fyrr en á miðvikudaginn að sögn yfirkjörstjórnar. Jafnvel á fimmtudag samkvæmt sænska dagblaðinu Aftonbladet.

Svíþjóðardemókratar, hægriflokkurinn Moderaterna, Kristilegir demókratar og Frjálslyndir höfðu samkvæmt því sem búið var að telja í morgun hlotið 49,7 prósent atkvæða á móti 48,8 prósentum rauðgrænu flokkanna svokölluðu, Vinstriflokksins, Sósíaldemókrata, Græningja og Miðflokksins.

Besti árangur í sögu Svíþjóðardemókrata

Talið í þingsætum tákna þessar tölur 176 sæti borgaralegu flokkanna á móti 173 sætum hinna fjögurra. Enn á þó eftir að telja atkvæði greidd erlendis, atkvæði sem væntanleg eru með pósti og atkvæði úr utankjörstaðaatkvæðagreiðslum sem er ástæðan fyrir því að lokatölur munu ekki liggja fyrir fyrr en um miðja viku.

Svíþjóðardemókratana má að vissu leyti kalla sigurvegara kosninganna þrátt fyrir að jafnaðarmannaflokkurinn Sósíaldemókratar hafi hlotið yfir 30 prósent atkvæða á móti 20,6 prósentum Svíþjóðardemókrata eins og tölfræðin lítur nú út á vef sænska ríkisútvarpsins SVT.

Svíþjóðardemókratar fagna nú sínu mesta fylgi í sögu flokksins og eru stærsti flokkurinn á hægri vængnum eftir þessar kosningar. Tók Åkesson sérstaklega fram það ætlunarverk flokks síns að öðlast sæti í nýrri ríkisstjórn falli sigurinn hægriflokkum í skaut. „Við munum sitja miðsvæðis í nýrri stjórn verði af valdaskiptum,“ sagði hann í ræðu sinni.

Ebba Busch, leiðtogi Kristilegra demókrata, lýsti ánægju sinni með gengi borgaralegu flokkanna í sinni ræðu í nótt. „Á þessu augnabliki stefnir í valdaskipti í Svíþjóð,“ hóf Busch ræðu sína.

SVT

SVTII (mjótt á munum)

Aftonbladet (lokatölur jafnvel á fimmtudag)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka