Google í Rússlandi gjaldþrota

Starfsstöð Google, Bay View campus, í Mountain View í Kaliforníu. …
Starfsstöð Google, Bay View campus, í Mountain View í Kaliforníu. Google í Rússlandi verður tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt dómsúrskurði í dag. AFP/Noah Berger

Dómstóll í Moskvu féllst í dag á gjaldþrotabeiðni útibús tækni- og leitarvélarisans Google í Rússlandi og hóf um leið fyrstu skref gjaldþrotameðferðar fyrirtækisins. Forsaga málsins er sú að fyrirtækið, sem eins og Google í Bandaríkjunum er dótturfyrirtæki Alphabet Inc., óskaði eftir gjaldþrotameðferð í sumar í kjölfar þess að rússnesk yfirvöld frystu bankareikning þess í vor.

Hafði fyrirtækið þá látið skipanir rússneskra yfirvalda sem vind um eyru þjóta, um að eyða efni sem þau töldu ólöglegt auk þess sem það hafði lokað fyrir aðgang að efni rússneskra fjölmiðla á myndskeiðavefnum YouTube.

„Frysting bankareiknings Google Russia gerir það að verkum að Rússlandsútibúið okkar er óstarfhæft þar sem það getur ekki greitt starfsmönnum sínum laun né staðið undir öðrum útgjöldum og fjárhagsskuldbindingum,“ lét talsmaður Google hafa eftir sér í maí og greindi við sama tækifæri frá því að í bígerð væri að óska eftir gjaldþrotameðferð.

Starfsmenn fluttir frá Rússlandi

Sjónvarpsstöð í eigu rússnesks viðskiptajöfurs, sem sætir viðskiptaþvingunum, gaf það út í apríl að innheimtumenn á vegum stjórnvalda hefðu tekið milljarð rúblna, jafnvirði tæplega 2,1 milljarðs íslenskra króna, af reikningum Google í Rússlandi þegar fyrirtækið neitaði að opna fyrir aðgang að efni stöðvarinnar á YouTube.

Google í Bandaríkjunum vildi á þeim tíma ekki greina frá því hvort sú innheimtuaðgerð hefði verið kveikjan að gjaldþrotameðferðinni eða hvort meira fé hefði verið innheimt af fyrirtækinu fyrir meinta óhlýðni þess við stjórnvöld eða frammámenn í rússnesku viðskiptalífi.

Staðfesti Google þó að hafa flutt fjölda starfsmanna sinna frá Rússlandi eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar. Áður, í desember í fyrra, höfðu rússnesk stjórnvöld sent Google í Rússlandi kröfu upp á 7,2 milljarða rúblna, jafnvirði 15 milljarða króna, fyrir að neita að eyða efni sem ekki væri stjórnvöldum þóknanlegt og var þar um að ræða fyrstu fjárkröfu þeirrar tegundar í Rússlandi.

Reuters

ReutersII (forsaga málsins)

Financial Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert