Tveir menn eru grunaðir um rán og frelsissviptingu í Tønsberg í Noregi um helgina með því að hafa flutt 81 árs gamlan mann nauðugan á brott þegar hann var útskrifaður af Sjúkrahúsinu í Vestfold á föstudagskvöld og rænt hann.
Öryggisvörður á sjúkrahúsinu fylgdi manninum þá út af sjúkrahúsinu og skildi hann eftir við aðalinngang þess. Að sögn Magnars Pedersens, rannsóknarlögreglumanns hjá lögreglunni í suðausturumdæminu, er lítið vitað um atburðarásina næsta sólarhringinn, eða þar til maðurinn fannst ráfandi á laugardagskvöld á E18-brautinni við Sem, þéttbýlissvæði sem tilheyrir Tønsberg.
Var hann þá að niðurlotum kominn en fjölskylda hans hafði tilkynnt lögreglu að hans væri saknað þegar hann skilaði sér ekki heim af sjúkrahúsinu kvöldið áður. Innan skamms varð ljóst að peningar höfðu verið teknir út af korti mannsins, nokkur þúsund norskar krónur, og með því að skoða myndefni öryggismyndavéla þar sem úttektin átti sér stað bárust böndin að tveimur mönnum sem voru handteknir um helgina en munir í eigu fórnarlambsins fundust á heimili annars þeirra.
Útilokar Pedersen þó ekki að fleiri hafi átt hlut að máli og segir lögreglu nú rannsaka hvort maðurinn hafi verið beittur ofbeldi. Hann vill ekki tjá sig um hvað fram hafi komið þegar lögregla tók skýrslu af manninum.
Handteknu eru sem fyrr segir grunaðir um rán og frelsissviptingu og voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í dag. Að sögn Pedersens gaf hvor þeirra sína skýringuna við fyrstu yfirheyrslur. Arild Almklov, sem skipaður hefur verið verjandi annars mannanna, kveður skjólstæðing sinn með böggum hildar yfir að hafa verið bendlaður við mannránið.
„Hann íhugar nú að kæra gæsluvarðhaldsúrskurðinn, ákvörðun um það liggur fyrir á morgun,“ segir Almklov en Stian Mork Sletten, verjandi hins mannsins, segir skjólstæðing sinn ekki kannast við málið. „Hann neitar að hafa frelsissvipt eða rænt nokkurn mann eða skilið hann eftir hjálparlausan. Hann hefur gefið lögreglu sína skýringu og hún hljómar allt öðruvísi en það sem lögreglan heldur fram,“ segir Sletten og bætir því við að hans maður muni kæra gæsluvarðhaldsúrskurðinn.