Almenningur fær í fyrsta sinn í dag tækifæri til að sjá kistu Elísabetar Bretlandsdrottningar í dómkirkju í Edinborg í Skotlandi.
Kistan var flutt í Holyroodhouse-höllina í borginni í gær.
Búist er við að þúsundir manna noti tækifærið og virði kistuna fyrir sér og kveðji drottninguna í leiðinni í St. Giles, dómkirkjunni, viku fyrir útför Elísabetar í Lundúnum.
Karl konungur og Kamilla drottning ætla að fljúga til Edinborgar í dag til að vera viðstödd athöfn í kirkjunni eftir að Karl hefur flutt sína fyrstu ræðu sem konungur á breska þinginu.
Líkkistan verður flutt eftir hinni sögufrægu konunglegu mílu í Edinborg frá Holyroodhouse-höllinni yfir í dómkirkjuna. Þar verður kistan í 24 klukkustundir „til að almenningur í Skotlandi geti vottað virðingu sína“, sagði embættismaður hallarinnar.
Búist er við mikilli öryggisgæslu og löngum biðröðum á svæðinu.