Fleiri yfir sundið en allt árið í fyrra

Farendur sjósetja gúmmífley nærri Gravelines í Norður-Frakklandi 25. ágúst og …
Farendur sjósetja gúmmífley nærri Gravelines í Norður-Frakklandi 25. ágúst og freista þess að leita hamingjunnar og betra lífs í ranni bresku þjóðarinnar. AFP/Denis Charlet

Fjöldi farenda (e. migrants) á smábátum, er lagt hafa leið sína yfir Ermarsundið frá Frakklandi til Bretlands, er orðinn meiri það sem af er árinu 2022 en allt árið í fyrra. Gerðist þetta þegar 601 farandi á samtals 19 bátum fór yfir sundið í gær og heildartala ársins náði 28.592 samanborið við 28.526 árið 2021.

Breska innanríkisráðuneytið neitar ríkisútvarpinu BBC um athugasemdir í skjóli þeirra raka að slíkt sé óviðeigandi á meðan þjóðarsorg ríki í landinu en BBC kveður þó ekki örgrannt um að mál farendanna muni vekja fulla athygli nýja innanríkisráðherrans Suellu Braverman sem látið hefur hafa eftir sér að algjört forgangsmál sé að ná stjórn á þessum ferðalögum yfir sundið.

Reyni að telja fólki hughvarf fyrir brottför

Meðal lausna sem velt hefur verið upp er að styrkja samstarfið við frönsk yfirvöld og fá þau til að beita sér við að stöðva farendabátana áður en þeir leggja í haf Frakklandsmegin en undir ágústlok fór mesti fjöldi nokkru sinni yfir sundið einn og sama daginn, 1.295 manns á 27 bátum.

Priti Patel, þáverandi innanríkisráðherra, skrifaði í apríl undir „fyrsta samning sinnar tegundar í heiminum“ sem var við yfirvöld í Rúanda og snerist um að þau legðu sitt lóð á vogarskálar þess að telja þegnum sínum hughvarf áður en þeir legðu upp í lífshættulega för til Bretlands.

Nokkrir hælisleitendur auk góðgerðarsamtakanna Care4Calais, Detention Action og Asylum Aid hafa hins vegar stofnað til málaferla yfir samningnum sem þessir aðilar telja ekki standast lög.

BBC

BBCII (1.295 á einum degi)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert