Hafi endurheimt sex þúsund ferkílómetra

Selenskí Úkraínuforseti.
Selenskí Úkraínuforseti. AFP

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir hersveitir landsins hafa endurheimt meira en sex þúsund ferkílómetra svæði af Rússum í september, bæði í austur- og suðurhluta landsins.

BBC greinir frá þessu en kveðst ekki geta staðfest þessa tölu. 

Rússar hafa viðurkennt að hafa misst lykilborgir í Karkív-héraði í norðausturhluta Úkraínu. Sumir hernaðarsérfræðingar telja að það gæti markað þáttaskil í stríðinu.

Stjórnvöld í Rússlandi segja að brotthvarf hersveita þeirra frá héraðinu undanfarna daga þýði að herinn sé að „endurskipuleggja sig“ og að hann ætli að einbeita sér að héruðunum Luhansk og Donetsk í austurhluta Úkraínu.  

„Frá byrjun september og þangað til í dag hafa hermenn okkar nú þegar frelsað meira en 6 þúsund ferkílómetra landsvæði í Úkraínu bæði í austri og suðri,“ sagði Selenskí í ávarpi sínu seint í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert