Níu handteknir í umfangsmiklum aðgerðum

AFP

Hollenska lögreglan handtók að minnsta kosti níu manns í viðamikilli lögregluaðgerð gegn meiriháttar fjársvikastarfsemi í landinu. Þá gerði lögreglan húsleit heima hjá framkvæmdastjóra næststærstu matvörukeðju landsins. 

Laganna verðir fóru inn á heimili og skrifstofur fyrirtækja vítt og breitt um landið. Þá handtók lögreglan 58 ára gamlan mann í norðausturhluta landsins, skammt frá borginni Assen. Að sögn saksóknara er maðurinn grunaður um að vera leiðtogi meintra glæpasamtaka. 

Átta til viðbótar voru handteknir í aðgerðunum sem beina kastljósinu sérstaklega að peningaþvætti. 

Þá kemur fram í hollenskum fjölmiðlum að lögreglan hafi framkvæmt húsleit hjá Fritz van Eerd, sem er framkvæmdastjóri Jumbo-matvörukeðjunnar. Fyrirtækið styrkir marga þekkta íþróttamenn, m.a. formúlu eitt ökuþórinn Max Verstappen og hollenska hjólaliðið Jumbo-Visma.

Saksóknarar segja að rannsókn þeirra hafi leitt í ljós að fjármunir hafi verið þvættaðir í gegnum sölu fasteigna, bílaviðskipti, óútskýrðar peningainnistæður og í gegnum styrktarsamninga í mótorkrosskeppnum. 

Saksóknarar segja ennfremur að grunur leiki á skattsvikum í bílaviðskiptum þar sem virðisaukaskattur hafi verið sniðgenginn. 

Í yfirlýsingu yfirvalda er Van Eerd ekki nefndur á nafn. Þá er ekki tekið fram hvort og þá hvernig hann tengist rannsókninni. En ljóst er að lögreglan gerði húsleit í glæsihýsi hans í bænum Heeswijk-Dinther, að því er hollenskir fjölmiðlar greina frá. Þeir segja að nokkrir kassar hafi verið bornir út úr húsinu og að leitað hafi verið í bifreið framkvæmdastjórans. 

Van Eerd, sem er 55 ára gamall, er vel þekktur í Hollandi. Ekki aðeins sem framkvæmdastjóri Jumbo heldur einnig sem mikill áhugamaður um kappakstur, en hann hefur fimm sinnum tekið sjálfur þátt í Dakar-kappakstrinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert