Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, kennir Armenum um átökin á milli Armeníu og Aserbaídsjan en að minnsta kosti 150 manns hafa látið lífið í átökunum sem hófust í gær.
Í gær greindi armenska varnamálaráðuneytið frá því að hersveitir frá Aserbaídsjan hefðu hertekið 10 ferkílómetra landsvæði frá Armeníu, en Tyrkland er helsti vopnabirgir Aserbaídsjan.
Armenar segja að hundruð óbreyttra borgara hafi þurft að yfirgefa heimili sín vegna sprengjuárásar Asera. Stjórnvöld í Aserbaídsjan neita ásökununum.
Erdogan segir að Armenar hafi svikið friðarsáttmála við Aserbaídsjan sem gerður var til að enda stríð á milli þjóðanna árið 2020.
Samningurinn gerði það að verkum að Aserar tóku völdin á störum hluta af landsvæðinu Nagorno-Karabakh, sem þeir höfðu tapað í stríði á milli Asera og Armena á tíunda áratugnum.
„Okkur finnst aðstæðurnar sem við erum í – sem eru afleiðingar af brostnum samningi sem var gerður eftir stríðið sem endaði með sigri Aserbaídsjan – vera óásættanlegar,“ segir Erdogan.
„Það mun, að sjálfsögðu, hafa afleiðingar fyrir Armeníu, sem uppfyllti ekki skilyrði samningsins og hefur sífellt sýnt árásargjarnt viðhorf.“
Samband Tyrklands og Armeníu er stirt, sérstaklega vegna þess að Tyrkland neitar að viðurkenna þjóðarmorð Ottómanveldisins á Armenum í fyrri heimsstyrjöldinni.