Bretaprinsarnir Vilhjálmur og Harry munu ganga saman á eftir kistu Elísabetar Bretlandsdrottningar í London í dag.
Bræðurnir, ásamt föður þeirra Karli konungi, munu ganga frá Buckingham-höll til Westminster Hall þar sem kistan mun hvíla. Erkibiskupinn af Canterbury mun stjórna þar athöfn sem mun standa yfir í um 20 mínútur, að sögn BBC.
Þrjú systkini konungsins, þau Anna prinsessa og prinsarnir Andrés og Játvarður munu einnig ganga á eftir kistunni.
Kamilla drottning og Katrín, prinsessa af Wales, munu ferðast á bíl ásamt hertogaynjunum Sophie og Meghan.
Fjöldi fólks hefur beðið í biðröð fyrir utan þinghúsið eftir því að fá að sjá kistuna.