Hluthafar í Twitter hafa samþykkt að halda til streitu samningi sem var gerður við Elon Musk um að kaupa fyrirtækið fyrir 44 milljarða Bandaríkjadala.
Ákvörðunin var tekin á stuttum fundi með fjárfestum í höfuðstöðvum fyrirtækisins í San Francisco.
Þetta þýðir að Twitter reynir núna að neyða Musk til að kaupa fyrirtækið í dómsal.
Fundur hluthafanna var haldinn eftir vitnisburð fyrrverandi öryggisstjóra Twitter, Peiter Zatko, á Bandaríkjaþingi. Þar sagði hann samfélagsmiðillinn hafa hunsað áhyggjur hans varðandi öryggismál.
Twitter samþykkti í apríl að selja Musk, ríkasta manni heims, fyrirtækið. Hann sagðist í framhaldinu hafa fengið misvísandi upplýsingar frá Twitter og ætlaði að hætta við kaupin. Twitter segir aftur á móti að Musk geti ekki dregið sig út úr samningnum.