Tvö lík fundust í íbúð

Tveir menn fundust myrtir í íbúð í Ulrichehamn í nótt, …
Tveir menn fundust myrtir í íbúð í Ulrichehamn í nótt, manndráp í Svíþjóð eru margfalt fleiri en í nágrannalöndunum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Átján ára stúlka og maður á þrítugs­aldri eru í haldi lög­reglu í Svíþjóð eft­ir að tveir menn fund­ust látn­ir í íbúð í Ulrichehamn, bæ um 100 kíló­metra aust­ur af Gauta­borg, upp úr klukk­an eitt í nótt að sænsk­um tíma, 23 í gær­kvöldi að ís­lensk­um.

Tvær grímu­klædd­ar per­són­ur höfðu þá sést klifra upp á sval­ir íbúðar­inn­ar þar sem þær svo brutu rúðu og komu sér þannig inn. Brá lög­regla skjótt við og kom tím­an­lega á staðinn til að hand­taka fólkið á vett­vangi.

Marg­falt fleiri mann­dráp en í ná­granna­lönd­um

„Við hand­tók­um fólkið á staðnum. Nú bíður okk­ar mik­il vinna við að gera okk­ur mynd af því hvað gerðist þarna,“ seg­ir Mal­in Kannius, stjórn­andi rann­sókn­ar­inn­ar hjá lög­regl­unni í Borås, en lög­regla úti­lok­ar ekki fleiri hand­tök­ur eft­ir því sem rann­sókn­inni vind­ur fram. Hún vill ekk­ert tjá sig um tengsl fólks­ins, ef ein­hver voru, eða hvað bjó að baki at­lög­unni.

Mann­dráp­um í Svíþjóð hef­ur fjölgað svo síðustu miss­eri að ískyggi­legt má telj­ast. Greindi sænska rík­is­út­varpið frá því í fyrra að 124 mann­dráp hefðu verið fram­in í land­inu árið 2020 en til sam­an­b­urðar má hafa að sama ár voru dráp í Nor­egi 31 og 37 í Dan­mörku svo til­fell­in í Svíþjóð eru marg­falt fleiri.

Aldrei hafa fleiri verið myrt­ir eitt og sama árið í Svíþjóð en 2020 en árið áður voru mann­dráp þar 111. Níu­tíu pró­sent fórn­ar­lambanna árið 2020 voru 18 ára og eldri. Af full­orðnum fórn­ar­lömb­um voru kon­ur 23 og karl­menn 89. Tólf börn voru myrt, tvær stúlk­ur og tíu dreng­ir.

Aft­on­bla­det

SVT

SVTII (mann­drápstöl­fræði)

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert