Átján ára stúlka og maður á þrítugsaldri eru í haldi lögreglu í Svíþjóð eftir að tveir menn fundust látnir í íbúð í Ulrichehamn, bæ um 100 kílómetra austur af Gautaborg, upp úr klukkan eitt í nótt að sænskum tíma, 23 í gærkvöldi að íslenskum.
Tvær grímuklæddar persónur höfðu þá sést klifra upp á svalir íbúðarinnar þar sem þær svo brutu rúðu og komu sér þannig inn. Brá lögregla skjótt við og kom tímanlega á staðinn til að handtaka fólkið á vettvangi.
„Við handtókum fólkið á staðnum. Nú bíður okkar mikil vinna við að gera okkur mynd af því hvað gerðist þarna,“ segir Malin Kannius, stjórnandi rannsóknarinnar hjá lögreglunni í Borås, en lögregla útilokar ekki fleiri handtökur eftir því sem rannsókninni vindur fram. Hún vill ekkert tjá sig um tengsl fólksins, ef einhver voru, eða hvað bjó að baki atlögunni.
Manndrápum í Svíþjóð hefur fjölgað svo síðustu misseri að ískyggilegt má teljast. Greindi sænska ríkisútvarpið frá því í fyrra að 124 manndráp hefðu verið framin í landinu árið 2020 en til samanburðar má hafa að sama ár voru dráp í Noregi 31 og 37 í Danmörku svo tilfellin í Svíþjóð eru margfalt fleiri.
Aldrei hafa fleiri verið myrtir eitt og sama árið í Svíþjóð en 2020 en árið áður voru manndráp þar 111. Níutíu prósent fórnarlambanna árið 2020 voru 18 ára og eldri. Af fullorðnum fórnarlömbum voru konur 23 og karlmenn 89. Tólf börn voru myrt, tvær stúlkur og tíu drengir.