Þýski hershöfðinginn Eberhard Zorn, sem er yfirmaður varnarmála í Þýskalandi, hefur hvatt fólk til að hrósa ekki sigri of snemma varðandi gagnsókn Úkraínuhers gegn hersveitum Rússlands. Zorn segir mögulegt að leiftursóknin verði ekki eins árangursrík og ætla mætti í fyrstu.
Zorn segir að úkraínski herinn geti náð aftur ákveðnum stöðum á sitt vald og unnið ákveðin svæði á fremstu víglínu, en mögulega gagnast aðferðin ekki til að þrýsta Rússum til baka á mjög stóru svæði. Þetta er haft eftir Zorn í tímaritinu Focus.
Rússneski herinn hefur neyðst til að hörfa frá stóru landsvæði í norðausturhluta Úkraínu, sér í lagi í Karkív-héraði, eftir að gagnsókn hersveita Úkraínu hófst í byrjun mánaðarins.
Þetta er eitt mesta bakslag sem rússneski herinn hefur mátt þola frá upphafi stríðsátakanna, sem hafa nú staðið yfir í sjö mánuði.
Úkraínskar hersveitir reyna nú einnig að sækja fram í suðurhluta landsins en þar hefur sóknin gengið mun hægar fyrir sig miðað við hernaðaraðgerðir þeirra í norðausturhluta Úkraínu.
Zorn varar við því að það geti teygst um of á herliði Úkraínumanna er þeir sækja fram á mörgum vígstöðvum í einu. Zorn segir að liðsmenn úkraínska hersins þyrftu að vera þrefalt fleiri en Rússarnir.
Zorn hrósaði þó því hvernig hernaðaraðgerðir Úkraínumanni hafi verið framkvæmdar og skipulagðar.
„Fyrir hálfum mánuði þá hefði ég sagt að allt Donbas-héraðið yrði undir stjórn Rússa innan sex mánaða. Í dag segi ég að það muni ekki takast hjá þeim,“ sagði Zorn.
Zorn varði einnig ákvörðun þýskra stjórnvalda varðsendi sendingu á vopnabúnaði Úkraínu. Yfirvöld í Þýskalandi hafa verið gagnrýnd fyrir að hafa hafnað því að senda skriðdreka til landsins, þrátt fyrir óskir úkraínskra stjórnvalda.
Zorn segir að hingað til hafi vopnasendingar Þjóðverja verið umtalsverðar, bæði í magni og í gæðum.
Hann tók einnig fram að Þjóðverjar yrðu að gæta að því að ganga ekki um of á eigin vopnabirgðir. „Allt sem við látum frá okkur þurfum við að fá til baka,“ sagði Zorn.