Flugskeytum skotið á stíflu í heimaborg Selenskís

Selenskí, lengst til vinstri, í úkraínsku borginni Izyum sem var …
Selenskí, lengst til vinstri, í úkraínsku borginni Izyum sem var áður undir stjórn Rússa. AFP

Rússneskum flugskeytum var skotið á stíflu skammt frá borginni Kryvyi í suðurhluta Úkraínu.

Íbúar á sumum svæðum voru beðnir um að yfirgefa heimili sín, sagði embættismaðurinn Oleksandr Vilkul, en tók fram að ástandið væri undir stjórn.

Úkraínsk stjórnvöld segja árásina vera hefnd vegna gagnsóknar úkraínskra hersveita að undanförnu.

„Þið eruð lítilmenni“

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, fæddist í borginni. Hann lýsti Rússlandi sem „hryðjuverkaríki“ eftir árásina á stífluna, að sögn BBC. 

„Þið eruð lítilmenni sem ráðist á almenna borgara,“ sagði Selenskí í ávarpi sínu seint í gærkvöldi. „Ribbaldar sem hafið flúið bardagasvæðið og reynið að valda skaða úr mikilli fjarlægð.“

Forsetinn virðist hafa þarna átt við gott gengi úkraínskra hersins í Karkív-héraði í norðausturhluta landsins.

Árásin hafði áhrif á vatnsbirgðir borgarinnar en þar bjuggu yfir 600 þúsund manns áður en Rússar réðust inn í Úkraínu. Vatn braust í gegnum stífluna, flæddi yfir árbakka og inn í einhver hús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert