Fundu 500 ára kertastjaka

Þrír fornleifafræðinganna níu að störfum á lóð Dómkirkjuskólans í Þrándheimi …
Þrír fornleifafræðinganna níu að störfum á lóð Dómkirkjuskólans í Þrándheimi sem stofnaður var árið 1152 og státar af ekki ómerkari fyrri nemendum en Hákoni gamla Hákonarsyni, Noregskonungi frá 1217 og til dauðadags árið 1263, og andspyrnuhetjunni Martin Linge. Ljósmynd/NIKU

„Við erum búin að vera við rannsóknir þarna síðan í júní, nú á að fara að byggja við skólann og þá framkvæma fornleifafræðingar forrannsókn til að ganga úr skugga um að sögulegar minjar fari ekki forgörðum við framkvæmdirnar.“ Þetta segir Julian Cadamarteri, fornleifafræðingur og verkefnisstjóri, í samtali við mbl.is en hann fer fyrir teymi níu fornleifafræðinga á vegum Menningarminjarannsóknarstofnunar Noregs (NIKU).

Viðbyggingin sem hann ræðir um er við Dómkirkjuskólann í Þrándheimi, Trondheim Katedralskole, einn af elstu skólum Noregs, en hann tók til starfa árið 1152 og státar af landsþekktum fyrrverandi nemendum, þar á meðal Hákoni gamla Hákonarsyni, Noregskonungi frá 1217 og til dauðadags árið 1263, og sé litið okkur nær í tíma Martin Jensen Linge sem fór fyrir annáluðustu sveit andspyrnuhreyfingar Noregs í síðari heimsstyrjöldinni, Kompani Linge.

Kertastjakinn sem talinn er um 500 ára gamall og sýnir …
Kertastjakinn sem talinn er um 500 ára gamall og sýnir dýrlingin Kristófer bera Jesú á herðum sér. Hugsanlegt er að einhver hafi falið þennan grip þegar danskir hermenn voru sendir frá Björgvin til erkibiskupstólsins í Niðarósi, nú Þrándheimi, til að herja þar og ræna á 16. öld. Ljósmynd/NIKU

Cadamarteri og teymi hans duttu heldur betur í fornleifalukkupottinn í sumar þegar fagurlega skreyttur kertastjaki sem hann telur vera frá 15. eða 16. öld kom upp úr jarðveginum við skólann gamla og lá frekar grunnt. Í skreytingu stjakans má sjá dýrlinginn heilagan Kristófer með Jesúbarnið á herðum sér en Kristófer er verndardýrlingur ferðamanna og starfaði samkvæmt sögunni við að bera fólk á herðum sér yfir fljót nokkurt. Vafi þykir þó leika á því að Kristófer þessi hafi nokkurn tímann verið til.

Forðað undan ránshendi Dana

„Hann er mjög heillegur sem er óvenjulegt þar sem mest af því sem við finnum er skaddað eða alveg ónýtt, en það er ekki gott að segja hver hefur átt hann. Á þessum stað stóð ekki kirkja svo vel getur verið að stjakinn hafi verið falinn þarna í einhverjum átökum,“ segir fornleifafræðingurinn frá.

Hann veltir upp þeim möguleika að þegar danskir hermenn voru sendir frá Björgvin til erkibiskupstólsins í Niðarósi, nú Þrándheimi, til að herja þar og ræna á 16. öld hafi einhver falið dýrgripinn á öruggum stað og þannig forðað honum undan ránshendi Dana. „Á þessu svæði héldu kanúkarnir [lat. canonicus, kórbræður] einnig til höfum við ráðið af heimildum, það voru prestarnir sem sátu í dómkirkjuráði Niðarósdómkirkjunnar,“ segir Cadamarteri frá.

Stjakinn ataður leðju eftir að hafa verið heimtur úr jarðveginum …
Stjakinn ataður leðju eftir að hafa verið heimtur úr jarðveginum þar sem hann hefur hugsanlega legið síðan um siðaskipti. Ljósmynd/NIKU

Kertastjakinn fari nú sína leið samkvæmt lögum um menningarminjar, verði skráður, forvarinn og endi að lokum á safni útskýrir hann, en allir munir eldri en frá 1537 sem finnast í Þrændalögum skuli lögum samkvæmt vera til reiðu fyrir frekari rannsóknir á Vísindasafninu í Þrándheimi, Vitenskapsmuseet i Trondheim.

Cadamarteri segir starfi hópsins á vettvangi ljúka 14. október. Auk kertastjakans hafi fornleifafræðingarnir fundið hálfan silfurpening sem gæti verið frá því um árið 1000, skriffæri, í raun blýant, og einhvers konar grip úr spili eða leik, skákmann eða einhvers konar tening, úr leir.

Hann segir þau tilvik vissulega koma upp að stöðva þurfi framkvæmdir finnist eitthvað sem verulegt gildi hafi en svo verði tæplega gert í Þrándheimi þótt kertastjakinn sé merkisgripur.

Handan vinnusvæðisins gnæfir Niðarósdómkirkjan yfir Þrándheimi, byggð á 11. og …
Handan vinnusvæðisins gnæfir Niðarósdómkirkjan yfir Þrándheimi, byggð á 11. og 12. öld yfir þann stað þar sem Ólafur helgi Noregskonungur var fyrst talinn hafa verið lagður til hvílu eftir að hann féll í Stiklastaðaorrustu árið 1030 og með honum Þormóður Kolbrúnarskáld. Ljósmynd/NIKU
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert