Fyrrverandi yfirmaður dönsku leyniþjónustunnar, Lars Findsen, var í dag ákærður fyrir að hafa lekið ríkisleyndarmálum.
Findsen var yfirmaður leyniþjónustunnar frá 2015-2020 þegar honum var vikið úr starfi vegna ásakana um að leyniþjónustan hefði njósnað um danska þegna og afvegaleitt þingið um störf sín. Ekki er vitað nákvæmlega hvaða upplýsingum Findsen á að hafa lekið.
Findsen hefur kallað ásakanirnar „sturlaðar“ en hann var hnepptur í varðhald vegna málsins í lok síðasta árs.
Saksóknari sagði í dag að Findsen væri ákærður fyrir að hafa „oft deilt mikilvægum leyndarmálum er varða þjóðaröryggi.“
Helstu atriði rannsóknarinnar eru bundnar trúnaði. Málið kemur eftir að danskir fjölmiðlar greindu frá því að danska leyniþjónustan hefði unnið í samráði við bandarísku þjóðaröryggisstofnunina, NSA.
Findsen kveðst saklaus í málinu en honum var vikið frá störfum í ágúst 2020 án þess að almenningur væri upplýstur um ástæðuna. Þá sat hann í gæsluvarðhaldi frá desember 2021 þangað til í febrúar á þessu ári.
„Ég hef aldrei lekið neinum ríkisleyndarmálum. Ég hafna ásökunum,“ sagði Findsen í samtali við danska fjölmiðilinn Ritzau í júní.
„Lekinn gæti skaðað tengsl við aðra leyniþjónustu aðila og gert þeim erfiðra fyrir að vinna vinnuna sína,“ sagði saksóknarinn Jakob Berger Nielsen.
Nielsen bætti við að traust til dönsku leyniþjónustunnar um að hún geti verndað viðkvæmar upplýsingar gæti hafa veikst. Farið verður fram á réttarhöld fyrir luktum dyrum en það hefur ekki verið staðfest hvenær þau verða.