Að minnsta kosti eitt líkanna sem fundust í fjöldagrafreit í úkraínska bænum Isíum var með hendur bundnar aftur fyrir bak eftir því sem AFP-fréttastofan greinir frá, en fjöldagröfin fannst í kjölfar þess er úkraínskar hersveitir heimtu bæinn úr höndum rússneska innrásarliðsins með leiftursókn.
Ástand líksins var þannig að örðugt var að greina hvort fórnarlambið var borgaralega klætt eða í herklæðum á dánarstundu en úkraínskir rannsakendur hafa sakað rússneska hernámsliðið um pyntingar og manndráp á þeim svæðum sem það hefur lagt undir sig og segjast talsmenn Sameinuðu þjóðanna vonast til þess að þær hefji stríðsglæparannsókn.
Embættismenn í Kænugarði segja að rannsakendur á vettvangi í Isíum hafi talið 450 grafir á því svæði sem grafreiturinn nær yfir auk þess sem tíu meintar „pyntingamiðstöðvar“ hafi fundist þar. Greinir AFP frá því að fréttamenn stofunnar, sem staddir eru í Isíum, hafi séð krossa á fjöldagröfum merkta númerum. Mátti þar á einum krossanna lesa áletrunina „Úkraínski herinn, 17 manns, líkhúsið í Isíum“.
Í þeim tilfellum þar sem unnt var að bera kennsl á líkin höfðu nöfn verið rituð á krossana auk dagsetninga en þær elstu er síðan snemma í mars, nokkrum dögum eftir að innrás Rússa hófst. Rússum hefur verið borið á brýn að ráðast á óbreytta borgara í Úkraínu og fremja þar með brot sem gætu flokkast undir stríðsglæpi, einkum í smábæjum í úthverfum höfuðborgarinnar Kænugarðs.
Frá skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Genf í Sviss bárust þær upplýsingar að SÞ vonist til að geta sent rannsóknarteymi til Isíum til að skoða kringumstæður við fjöldagrafreitinn í skóglendinu þar.