Myrti níræða vinkonu sína

Fyrr um daginn höfðu konurnar snætt saman pönnukökur í íbúð …
Fyrr um daginn höfðu konurnar snætt saman pönnukökur í íbúð fórnarlambsins. AFP

Christina Hermansson, kona á sextugsaldri, var fundin sek fyrir sænskum dómi í gær um morð á níræðri nágrannakonu sinni. Morðið átti sér stað í Helsingborg í mars á þessu ári.

Hermansson var dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir morð og svik. Hún neitar þó enn sök. 

Christina sjálf hafði samband við ættingja hinnar níræðu konu og sagðist hafa áhyggjur af því að hún kæmi ekki til dyra. Haft var samband við heimaþjónustuna og þegar inn í íbúðina var komið fannst konan látin á baðherbergisgólfinu, með nokkur stungusár.

Þegar lögregla kom á vettvang var Christina handtekin en við húsleit í íbúð hennar fannst hnífur og blóðug föt í sófanum.

Hjálpsöm við gömlu konuna

Málið hefur vakið óhug í Svíþjóð og þá sérstaklega í ljósi þess að konurnar voru nánar vinkonur. Christina aðstoðaði nágrannakonu sína daglega við ýmis störf en konunni hafði hrakað mikið frá því eiginmaður hennar lést nokkrum mánuðum fyrr.

Hún sinnti konunni einstaklega vel en hún eldaði fyrir hana, fór í gönguferðir og hjálpaði henni með ýmis verk. Hún hafði margsinnis tjáð ættingjum fórnarlambsins hversu vænt henni þætti um hana og kom það ættingjum því í opna skjöldu þegar hún var sökuð um verknaðinn.

Fyrr um daginn höfðu konurnar snætt saman pönnukökur í íbúð fórnarlambsins.

Í yfirheyrslu komu ættingjar því á framfæri að hún héldi, ef eitthvað væri, of mikilli verndarhendi yfir fórnarlambinu og kæmi það gríðarlega á óvart ef hún hefði eitthvað með málið að gera, að því er segir í umfjöllun Expressen.

Dæmd í lífstíðarfangelsi

Christina var dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir morð og fjársvik. Þá komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að hún skyldi greiða dánarbúinu skaðabætur upp á 103.927 sænskar krónur, sem jafngildir um 1,3 milljónum króna.

Þá var hún einnig fundin sek um svik í tveimur liðum, þar sem hún á að hafa tekið peninga út af bankareikningi konunnar fyrir sjálfa sig.

Hún neitar enn sök og sagði í yfirheyrslum að hún hefði aldrei unnið nágrannakonu sinni mein. Hún hefur þó ekki getað útskýrt hvernig morðvopnið og blóðið fannst í íbúð hennar við húsleit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert